Reynt að nálgast Jóhannes með slæmt í huga

Jóhannes Stefánsson í Kastljósi í kvöld.
Jóhannes Stefánsson í Kastljósi í kvöld. Skjáskot úr Kastljósi

Uppljóstrarinn Jóhannes Stefánsson, fyrrverandi starfsmaður Samherja í Namibíu, var á tímabili með þrettán lífverði er hann dvaldi í Suður-Afríku í tvö skipti.

Þetta kom fram í viðtali við hann í Kastljósi

Heima á Íslandi er hann ekki með lífverði en gerir þess í stað sínar eigin öryggisráðstafanir. Lögreglan veit af honum og hans stöðu. „En þegar ég ferðast þarf ég oft að hafa lífverði,“ sagði hann en tók fram að hann væri ekki hræddur.

Nokkrum sinnum reynt að eitra fyrir honum

Spurður hvort honum hafi verið hótað sagðist hann hafa fengið talsvert af aðvörunum síðan málið hófst fyrir rúmum þremur árum. „Það hefur verið reynt að nálgast mig með slæmt í huga en ég hef bara verið svo heppinn að vera með góða lífverði í kringum mig,“ sagði hann og nefndi að skrítið fólk hefði komið inn í líf hans sem hafði áhuga á tölvunni hans og gögnunum.

Hann segir lögregluna í Namibíu vera að rannsaka nokkur tilfelli varðandi hvort reynt hafi verið að eitra fyrir honum en áður hefur hann greint frá því í viðtali við Al Jazeera. Talsverð saga er komin á bak við það, að sögn Jóhannesar, sem sagðist hafa verið talsvert veikur og hefur hann verið undir umsjón læknis síðan þá. Hann telur að reynt hafi verið að eitra fyrir honum í gegnum drykkjarföng og mat í fleiri en eitt skipti.

Sacky Shanghala, fráfarandi dómsmálaráðherra Namibíu (t.v.), ásamt Jóhannesi Stefánssyni árið …
Sacky Shanghala, fráfarandi dómsmálaráðherra Namibíu (t.v.), ásamt Jóhannesi Stefánssyni árið 2014. Ljósmynd/Wikileaks

Vísar yfirlýsingum Samherja á bug

Jóhannes sagði yfirlýsingar Samherja síðan hann steig fram opinberlega vera skrítnar og að þær eigi eftir að nýtast þeim sem rannsaka málið. Ekkert standist í þeim. Nefndi hann að búið væri að handtaka sex hákarla í Namibíu vegna meintra mútugreiðslna upp á 800 milljónir króna. „Ég er bara ábyrgur fyrir 20—30% af þeim.“

Bætti hann því við að hann hefði afhent héraðssaksóknara og rannsakendum í Namibíu öll sín gögn og tölvupósta. Allir þeir póstar sem hafi verið birtir snúi að málinu. Bætti hann við að fleiri póstar verði birtir og sagði hann ágætt að Samherji vilji að allir póstarnir verði birtir. Hvatti hann þá til að afhenda alla hans tölvupósta frá því hann hóf störf í Namibíu árið 2011.

„Þeim er velkomið að reyna að villa um fyrir fólki. Rannsóknaraðilar og Wikileaks er með alla mína pósta.“

Nýtur verndar sem vitni 

Jóhannes sagðist ánægður með það hvernig stjórnvöld í Namibíu hafa tekið á málinu og sagði þau hafa náð í öll þau gögn sem þau þurftu til að sanna málið frekar.

Nefndi hann einnig að hann njóti verndar í Namibíu sem vitni en njóti ekki verndar sem uppljóstrari hjá héraðssaksóknara.

Hann kvaðst ekki hafa séð eftir því að hafa stigið fram. Þvert í móti sé hann enn ákveðnari en áður. Hann vill fyrst og fremst að fólkið í Namibíu njóti góðs af sínum auðlindum. Jóhannes sagðist hafa trú þá því að málið muni enda sem dómsmál á Íslandi og að rannsóknir í öðrum löndum hjálpi til við að árangur náist hérlendis.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert