Straumur fór af þónokkrum byggðum í gær, einkum á Norðurlandi og Vestfjörðum. Dísilstöðvar eru keyrðar sem varaafl á flestum stærri stöðum. Alvarlegasta bilunin varð á Kópaskerslínu þar sem nokkuð á annan tug staura brotnuðu.
Ljóst er að það tekur að minnsta kosti viku að gera við línuna. Bilanirnar eru bæði á flutningskerfi Landsnets og dreifikerfi Rarik. Þær hafa aðallega orðið vegna ísingar og vinds en einnig vegna samsláttar lína. Tekist hefur að gera við bilanir sums staðar en annars staðar er ekki aðstaða til að kanna skemmdir hvað þá gera við vegna veðurhæðar. Nokkrar sveitir voru alveg rafmagnslausar í gærkvöldi.
Dísilstöðvar sjá Kópaskeri, Raufahöfn, Þórshöfn og Bakkafirði fyrir rafmagni en sums staðar þarf að skammta orku. Tryggvi Þór Haraldsson, forstjóri Rarik, segir að fyrirtækið sé að útvega sér olíu til að keyra vélarnar í viku eða 10 daga því það taki tíma að gera við.
Vandræði hafa verið með Sauðárkrók vegna bilunar á línu Landsnets frá Varmahlíð. Rafmagn fyrir bæinn er framleitt með dísilvélum en einnig er rafmagn skammtað.
Geiradalslína sem er eina tenging Vestfjarða við raforkukerfi landsins bilaði í gær. Flestar byggðir njóta varaafls sem framleitt er með dísilvélum auk orku frá Mjólkárvirkjun. helgi@mbl.is