Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir að ofsaveðrið í vikunni og afleiðingar þess sýni að það þurfi að forgangsraða til innviðamála til lengri tíma og það sé meðal þeirra verkefna sem samstarfshópur fimm ráðuneyta, sem settur var á laggirnar í dag, eigi að koma að. Hún segir alveg ljóst að varaaflstöðvar hafi skipt sköpum nú þegar samfélagið sé orðið miklu háðara rafmagni en áður. Nauðsynlegt sé að vera betur viðbúin og hafa meiri viðbragðsgetu þegar hamfarir eins og þessar skella yfir.
Katrín var meðal fimm ráðherra sem heimsóttu Dalvík í dag til að heyra í heimamönnum og skoða aðstæður, en eftir heimsóknina fór hún ásamt Sigurði Inga Jóhannssyni, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, áleiðis til Sauðárkróks og þaðan er stefnan sett á Húnavatnssýslurnar. Hinir ráðherrarnir fóru á Ólafsfjörð og ætluðu svo að heyra í fólki á Akureyri.
Rafmagns- og fjarskiptalaust var með öllu á svæðinu í rúmlega tvo sólarhringa, segir Katrín. „Fjarskiptaleysið, það er stórmál“ sem þurfi að huga betur að. „Ekki bara að við höfum séð að fjarskiptin hafi farið út. Það voru líka útvarpssendingar,“ segir hún.
„Í fyrsta lagi finnst mér allir vera að bregðast við af miklu æðruleysi af því að þetta er gríðarlega erfitt og þungt ástand fyrir íbúa og atvinnulíf á staðnum. Það er líka svo að við erum stödd úti í miðri á. Rafmagnsleysið sem hér varð í þessu veðri er bæði umfangsmesta og mest langvarandi rafmagnsleysi sem við höfum séð á síðari tímum sem segir auðvitað sitt um þetta veður sem gekk yfir,“ segir Katrín við blaðamann að heimsókninni lokinni.
Hún segir að magnað hafi verið að sjá með eigin augum þær viðgerðir sem eigi sér stað á rafmagnsmannvirkjum og hvað þurfi í raun að gera til að koma hlutunum í samt lag aftur. „Hér er fólk sem er búið að vera að vinna sólarhringum saman án þess að una sér hvíldar til að koma rafmagni á,“ segir hún.
Ljóst er að eitthvað tjón, annað en á rafmagnsmannvirkjum, varð í óveðrinu og þá er óttast að frekara tjón geti orðið á heimilum vegna rafmagnsleysis sem hefur orsakað hitavatnsleysi á fjölmörgum bæjum. Spurð hvort ríkið stígi þar eitthvað inn í segir Katrín að bæði þurfi fyrst að skoða hvernig tryggingafélög og náttúruhamfaratryggingar bæti slík tjón. „En það er vel þekkt, við höfum oft lent í tjóni vegna ýmiss konar náttúruhamfara og það er sérstakur ráðuneytisstjórahópur sem hefur það hlutverk að meta tjónið, það verður gert.“
Spurð hvort ríkisstjórnin hafi lagt einhverja fjármuni til hliðar vegna þessa segir hún að ríkisstjórnin viti að það þurfi að laga margt og að það verði ekki ókeypis.
Sigurður Ingi hefur viðrað þá hugmynd að nýta arðgreiðslur orkufyrirtækja til aukinnar innviðauppbyggingar. Spurð út í þessar hugmyndir Sigurðar segir Katrín að ekki hafi verið rætt um neina útfærslu á fjárveitingu til aukinna innviðauppbyggingar. „Vitum bara að það þarf fjármuni í að byggja þetta upp. Það verður okkar verkefni að leysa úr því hvaðan þeir koma. Allt er þetta sami vasinn á endanum,“ segir hún. Ekki hefur nein upphæð verið eyrnamerkt verkefninu að sögn Katrínar. „Aðalmálið er að verkið verði unnið.“