Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ráðherra ferðamála, iðnaðar og nýsköpunar, segir að leggjast þurfi vandlega yfir þau mál sem snerta langvinnt rafmagnsleysi sem hefur verið á Norðurlandi og hvort fara þurfi í hraðari uppbyggingu á innviðum sem auka raforkuöryggi. Hún kom ásamt fjórum öðrum ráðherrum í ríkisstjórninni til Dalvíkur í dag til að hitta heimafólk og fara yfir aðstæðurnar.
„Það er grundvallaratriði að það sé varaafl þar sem þarf að vera varaafl,“ segir hún spurð um atriði sem þurfi að huga að til frambúðar til að reyna að fyrirbyggja rafmagnsleysi sem þetta.
Á Dalvík liggur varðskipið Þór við bryggju, en þangað kom skipið í gær til að tengjast raforkukerfi sveitarfélagsins og knýja það áfram meðan rafmagnslínur liggja niðri. Var þar í fyrsta skiptið notast við þennan möguleika sem hafði verið útbúinn í skipið þegar það var byggt.
Þórdís segir að þótt hún hafi verið búin að átta sig á umfangi vandamálsins með raforkukerfið, enda hafi hún verið vel upplýst um það í ráðuneytinu undanfarna daga, sé alltaf annað að koma á vettvang og sjá hlutina með eigin augum „og hitta fólkið sem hefur staðið í ströngu í marga sólarhringa,“ segir hún. „Það hefur alltaf áhrif á mann og maður hefur gagn af því.“
Hún segist þó hafa séð og lært ýmislegt nýtt í stuttri tveggja stunda viðkomu á Dalvík. „Ég hef aldrei séð svona ísingu á línu. Maður er því að sjá hluti sem maður hefur ekki séð áður og það er ákveðin upplifun.“
Í morgun kynnti ríkisstjórnin samráðshóp fimm ráðuneyta sem hefur það hlutverk að skoða innviði í flutnings- og dreifikerfi raforku og fjarskiptum til að tryggja að slíkir grunninnviðir séu sem best í stakk búnir til að takast á við ofsaveður eða aðrar náttúruhamfarir. Segir Þórdís að hún hafi miklar væntingar til hópsins og að hann muni vinna hratt. Þá segir hún pólitíska forystu hópsins til þess fallna að hægt verði að fá pólitískan stuðning við verkefni sem unnið hafi verið að innan ráðuneytanna.