Um fjörutíu manna vinnuflokkur á vegum Landsnets vinnur nú hörðum höndum að því að hreinsa Dalvíkurlínur af ísingu og brotnu efni, en þegar því er lokið verður farið í að endurreisa línuna. Tímarammi um það ætti að liggja fyrir síðar í dag þegar tekist hefur að skoða alla línuna, en samtals eru um 30 stæður skemmdar og vitað er um slit á einum stað á línunni.
Smári Jónasson, forstöðumaður netþjónustu hjá Landsneti, stýrir hópnum rétt sunnan við Dalvík, en hann segir við blaðamann mbl.is að menn viti núna hvernig eigi að vinna verkið eftir að hafa náð að mestu utan um það. „Við erum komnir með öll tæki á staðinn, efni er til staðar og það er meira að koma, en það kemur allt í ákveðinni röð,“ segir hann.
Smári segir tímalínuna skýrast þegar það sé komið alveg í ljós hvernig leiðarinn líti út. „Það skipti miklu máli að sjá hann og núna erum við að vinna í að taka hann upp og taka efni frá. Þetta er jafnframt hættulegasti tíminn, en það eru allskonar kraftar sem maður þarf að varast og eru hættulegir,“ segir hann og bætir við að starfsmennirnir viti vel hvað þeir séu að gera, en að þetta kalli á að hlutirnir séu gerðir skref fyrir skref.
Sem fyrr segir eru 30 stæður skemmdar, annaðhvort staurarnir sjálfir eða slárnar. Þá liggur línan víða niðri vegna ísingar og hefur slitnað á allavega einum stað.
Ágætis veður er á staðnum í dag, þó að nokkuð dökkt sé yfir á köflum. „Þetta er æðislegt núna, besti dagurinn frá því að óveðrið gekk yfir,“ segir Smári, en allur hópurinn er núna úti og nýtir birtuna.
Fyrsti hópur frá Landsnet lagði af stað strax á miðvikudaginn og aðfaranótt fimmtudags komu fyrstu bílar að sunnan með efni. „Það var eiginlega bara mokað á undan okkur og við fylgdum Vegagerðinni inn á svæðið,“ segir hann.
Til viðbótar við skemmdir á línum Landsnets er talsvert um skemmdir á línum Rarik á svæðinu, sérstaklega í Svarfaðardal. Hjá Landsneti eru svo 10 stæður skemmdar í Laxárlínu frá Rangárvöllum að Laxá. Þá eru skemmdir í Ljósavatnsskarði, Húsavíkurlínu og umtalsvert miklar skemmdir við Húsavík. „Ísingin er aðalástæðan fyrir þessum skemmdum,“ segir Smári að lokum.