Kærir gæsluvarðhald til Landsréttar

Lögreglubíll í Úlfarsárdal.
Lögreglubíll í Úlfarsárdal. mbl.is/Alexander Gunnar

Litháískur karlmaður sem er grunaður um að hafa orðið samlanda sínum að bana í Úlfarsárdal hefur kært til Landsréttar gæsluvarðhaldsúrskurð yfir sér.

RÚV greinir frá þessu en maðurinn var á mánudaginn úrskurðaður í gæsluvarðhald til 19. desember, á grundvelli rannsóknarhagsmuna.

Búist er við að Landsréttur taki málið fyrir í byrjun næstu viku. Maðurinn er í einangrun í fangelsinu á Hólmsheiði.

Margeir Sveinsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá miðlægri rannsóknardeild, segir við mbl.is að mál mannsins sé enn til rannsóknar. 

Aðspurður segist hann ekki geta tjáð sig frekar um málið eða hvenær rannsókninni ljúki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert