„Þetta eru hamfarir“

„Við erum í hringiðunni miðri en hún er aðeins að …
„Við erum í hringiðunni miðri en hún er aðeins að grynnka,“ segir Katrín Sigurjónsdóttir, sveitarstjóri Dalvíkurbyggðar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Fólk hefur alveg ótrúlegan skilning á því að þetta eru hamfarir. Engu að síður verðum við núna að skoða hvar við höfum tækifæri til að minnka líkur á að svona ástand skapist nokkurn tímann aftur.“

Þetta segir Katrín Sigurjónsdóttir, sveitarstjóri Dalvíkurbyggðar. Óveðrið sem gekk yfir landið í vikunni olli bæði rafmagns- og fjarskiptaleysi í sveitarfélaginu þegar Dalvíkurlína datt út. Ekki er von á að rafmagn komist aftur á Dalvíkurlínu fyrr en í fyrsta lagi á mánudag, en varðskipið Þór sér Dalvík fyrir rafmagni eins og sakir standa.

Það er komið rafmagn í þéttbýlinu en það er ekki ennþá komið í dölunum. Svarfaðardalur og Skíðadalur eru ennþá úti og það stefnir í að það verði fram yfir helgi,“ segir Katrín. Jafnframt er enn alveg fjarskiptalaust í dölunum.

Eiga björgunarsveitum allt að þakka

Hvað kyndingu varðar segir Katrín þau hafa verið vel undirbúin á Dalvík, þar sem sé hitaveita með vatnsveitu. „Það hefur bjargað okkur að ná að halda vatni og hita á þorra samfélagsins,“ segir Katrín, en tekur þar út fyrir sviga Svarfaðardal og Skíðadal, þar sem ekki hafi verið lögð hitaveita. Nú sé unnið að því að lágmarka þar tjón sem geti orðið vegna nístingskuldans sem von er á.

Varðskipið Þór sér Dalvík fyrir rafmagni.
Varðskipið Þór sér Dalvík fyrir rafmagni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Katrín segir sveitarfélagið eiga björgunarsveitinni nánast allt að þakka. „Björgunarsveitin hefur algerlega tekið yfirumsjónina með ástandinu í dölunum. Þar eru þeir okkar sérfræðingar. Þeir eru tækjum búnir og hafa kunnáttu til að komast í hvaða færi sem er. Þarna hafa þeir verið okkar lykilfólk. Við berum óendanlegt þakklæti til fólksins sem er að leggja dag við nótt í svona hjálparstarfi.“

Þá hafi samfélagið fundið fyrir miklum samhug annars staðar frá, svo sem frá öðrum sveitarstjórum og ráðamönnum þjóðarinnar. Þá er von á hluta ríkisstjórnarinnar til Dalvíkur nú síðdegis.

Brotalöm í fjarskiptakerfinu

„Við erum í hringiðunni miðri en hún er aðeins að grynnka. Það er alveg ljóst að það þarf að fara yfir verkferla og samskiptaleiðir. Við verðum að geta komið neyðartilkynningum til fólks. Það var ekki hægt að ná sambandi við fólk í dölunum nema senda einhvern landleiðina, en veðurhæðin var slík að það var ekki hægt lengi vel.“

Katrín segir að þarna sé komin í ljós brotalöm í fjarskiptakerfinu. „Nú þarf að rýna hvaða tækifæri við höfum sem þjóðfélag til a byggja upp innviði svo við getum komið hjá svona samskiptaleysi.“

Fjöldi rafmagnsstaura brotnuðu í Svarfaðardal og víðar í óveðrinu. Unnið …
Fjöldi rafmagnsstaura brotnuðu í Svarfaðardal og víðar í óveðrinu. Unnið er að viðgerðum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þá segir Katrín að lengi hafi verið kallað eftir betri hringtengingu á svæðið. „Hérna brestur lykillína, Dalvíkurlína, og það þýðir langvarandi rafmagnsleysi hér og utan við okkur. Við erum búin að kalla eftir, ég veit ekki hversu langt aftur, aukinni raforku inn á Eyjafjarðarsvæðið. Ég er ekkert viss um að það hefði bjargað okkur núna en ef við hefðum haft betri hringtengingar og betra varaafl frá landskerfinu, en þá hefðum við kannski getað sloppið aðeins betur.“

Í dag er unnið að því að koma upplýsingum í staðarblaðið sem fer í dreifingu í allt sveitarfélagið. Forgangsmálið segir Katrín vera íbúa í dölunum, auk þess sem horft er til þess að koma afli á frystigeymslur fyrirtækja í bænum.

„Rafmagnstjón er stjóra tjónið. Svo veit ég ekki hvernig þetta endar eftir frostið ef rafmagn fer ekki að koma á hérna frammi í dölunum. Það er stærsta spurningarmerkið núna, hversu vel okkur tekst að verja þar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert