Flugvél Icelandair, sem var á leið frá Keflavík til Boston, var snúið við um hálftíma eftir flugtak. Í samtali við mbl.is segir Ásdís Ýr Pétursdóttir, upplýsingafulltrúi Icelandair, að vélin hafi lent heilu og höldnu á Keflavíkurflugvelli um klukkan 18:20.
Tæknibilun kom upp í svokölluðum jafnþrýstibúnaði vélarinnar, sem stýrir loftþrýstingi. Ekki kom þó til þess að loftþrýstingur félli, en Ásdís segir að ákveðið hafi verið að snúa vélinni við í öryggisskyni, í samræmi við verklag.
Skamman tíma tók að gera við vélina, en þegar blaðamaður náði tali af Ásdísi, um klukkan 21:06, var vélin við það að fara í loftið á ný.