Ýmislegt ber enn á milli í viðræðum um loftslagssamning á Loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Madrid en viðræðunum átti að ljúka í gær. Iðnríki og smáeyjaríki deila nú hart um viðskipti með losunarkvóta en Ísland er ekki hlynnt því að þau viðskipti verði eins auðveld og þau eru í dag.
Þetta segir Helga Barðadóttir, formaður samninganefndar Íslands gagnvart loftslagssamningnum. Hún er enn stödd í Madrid og veit ekki hversu lengi hún mun dvelja þar og halda áfram viðræðum.
„Það eru enn að koma inn nýir pappírar með nýjum textum sem menn eru að rýna í núna,“ segir Helga. „Þetta er mjög skrýtið umhverfi. Nú sitja bara allir og bíða eftir næstu skrefum.“
Markmiðið er að klára samninginn. „Það er bara spurning hvort aðilar nái að koma sér saman og hversu mikinn tíma þeir gefa sér.“
Eins og áður segir er helst deilt um losunarheimildir. „Sumt af þessu er mjög tæknilegt en það er til dæmis þessi krafa ákveðinna ríkja um að færa Kyoto-heimildir yfir í nýja kerfið og það er farið að ræða möguleikann á því að það verði gert í einhverju takmörkuðu magni í eitthvert takmarkað tímabil,“ segir Helga.
Það eru því nokkur ríki, Brasilía, Kína og Indland, sem krefjast þess að mega áfram nýta losunarheimildir frá viðskiptakerfi sem var notað á svokölluðu Kyoto-tímabili.
„Það er nokkuð sem menn eru ekki búnir að koma sér saman um. Smáeyjaríkin eru til dæmis alfarið á móti þessu svo það er Brasilía sem hefur staðið fastast á sínu í þessu.“
Aðspurð segir Helga að smáeyjaríkin séu sérstaklega andstæð þessu þar sem þau hafi farið hvað verst út úr loftslagsbreytingum og með því að nota Kyoto-heimildirnar áfram verði auðveldara fyrir ríki að losa meira en ella.
„Smáeyjaríkin telja að þetta sýni ekki nógu mikinn metnað í nýja kerfinu. Svo er líka ákall frá smáeyjaríkjunum um að menn setji fram texta um að menn ætli sér virkilega að fara í metnaðarfyllri aðgerðir.“
Spurð hvar Ísland standi í þessu máli segir Helga:
„Við erum náttúrlega ekki hlynnt því að flytja mikið af kvótum inn í nýja kerfið en það getur vel verið að einhverri málamiðlun verði komið á til að koma málum áfram. Það er algjörlega út úr myndinni að það verði veitt einhver ótakmörkuð heimild til að flytja inn kvóta frá hvaða verkefnum sem er en eins og í samningum almennt þá snýst þetta um málamiðlanir.“
Helga sér ekki fyrir endalokin eins og er og það virðist forsvarsmaður formennskunnar ekki gera heldur.
„Hann var í gær spurður hvenær þyrfti að tæma húsin og hann gaf nú ekkert út á það svo hann lét líta út fyrir að það væri hægt að halda áfram hérna. Svo er líka möguleiki að þessu verði bara fleytt til næsta fundar.“
Spurð hvort það væri ekki slæm niðurstaða segir Helga: „Það er náttúrlega alltaf erfitt þegar slíkt er gert.“