Atvinnuleysi á landinu jókst verulega í seinasta mánuði og um 9% frá mánuðinum á undan. Skráð atvinnuleysi var 4,1% í seinasta mánuði samkvæmt mánaðaryfirliti Vinnumálastofnunar, sem birt var í gær.
Atvinnuleysi hefur ekki mælst hlutfallslega jafn mikið frá því í aprílmánuði árið 2014.
,,Aukningin er mest áberandi á Suðurnesjum og þá meðal útlendinga. Það er verkefnið sem við erum mest að einbeita okkur að núna,“ segir Karl Sigurðsson, sérfræðingur hjá Vinnumálastofnun. Í seinasta mánuði mældist skráð atvinnuleysi 8,4% á Suðurnesjum og 4,2% á höfuðborgarsvæðinu. Spáð er að atvinnuleysið verði áfram vaxandi í yfirstandandi mánuði og verði allt að 4,4%, að því er fram kemur í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.