Allt útlit er fyrir að stjórnarfrumvarpið um lengingu fæðingarorlofs í 12 mánuði í tveimur áföngum verði að lögum fyrir jólaleyfi þingmanna.
Full samstaða er um það í þinginu að lengja fæðingarorlofið en mjög skiptar skoðanir eru á því hvernig útfæra eigi skiptingu réttarins til fæðingarorlofs á milli foreldra samkvæmt upplýsingum Helgu Völu Helgadóttur, formanns velferðarnefndar.
Meirihluti nefndarinnar hefur lagt fram breytingartillögur við frumvarpið þar sem sú skylda er lögð á félags- og barnamálaráðherra að leggja fram frumvarp á Alþingi eigi síðar en í október 2020 þar sem ákvæði um skiptingu fæðingarorlofs milli foreldra og sameiginlegan rétt verði tekin til endurskoðunar. Nefnd sem fjallar um heildarendurskoðun laganna útfæri skiptingu fæðingarorlofsins fyrir þann tíma.
Í frumvarpinu er lagt til að réttur hvors foreldris til fæðingarorlofs verði 5 mánuðir og sameiginlegur réttur sem þeir geta skipt með sér verði tveir mánuðir. Meirihluti nefndarinnar leggur til að skiptingin miðist við fjóra mánuði þar til og ef önnur útfærsla verður ákveðin á næsta ári, að því er fram kemur í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.