Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra segir í samtali við Morgunblaðið, spurður út í jákvæð viðbrögð Donalds Trumps Bandaríkjaforseta við kosningasigri íhaldsmanna í Bretlandi og mögulegan fríverslunarsamning Breta og Bandaríkjamanna í kjölfar úrslitanna, að það sé gott ef slíkur samningur komist á, enda sé enginn fríverslunarsamningur í gangi milli Bandaríkjanna og ESB.
„Eitt af því sem við höfum lagt áherslu á er að efla samskiptin við Bandaríkin. Viðskiptasamráðið sem við Mike Pompeo, utanríkisráðherra landsins, settum af stað í febrúar, og hefur verið í gangi allt þetta ár er liður í því. Þessi mál tengjast ekki, en við skulum ekki útiloka að einhverjir möguleikar geti opnast fyrir okkur ef Bretar og Bandaríkin semja sín á milli,“ segir Guðlaugur Þór.
Jakob Rolfsson, sérfræðingur hjá Ferðamálastofu, og Erna Björg Sverrisdóttir, aðalhagfræðingur Arion banka, telja að mögulegur uppgangur bresks efnahagslífs, ef brexit raungerist, geti orðið til að auka áhuga Breta á Íslandsferðum.