Guðni Einarsson
Tetra-kerfið lá niðri í Skagafirði í hátt í sólarhring og var svo mjög óstöðugt, datt inn og út, á meðan ofsaveðrið geisaði fyrr í vikunni. „Það var ekkert hægt að treysta á Tetra-kerfið,“ segir Stefán Vagn Stefánsson, yfirlögregluþjónn á Norðurlandi vestra í Morgunblaðinu í dag.
„Við gátum notað kerfið til að tala saman hér innan svæðis, en vorum sambandslaus út fyrir svæðið eins og við fjarskiptamiðstöð lögreglunnar og Neyðarlínuna 112.“
Hann sagði að fara þyrfti yfir og laga áreiðanleika kerfisins samkvæmt fenginni reynslu. Það tengir saman lögreglu, slökkvilið, sjúkralið og björgunarsveitir og gegnir lykilhlutverki fyrir viðbragðsaðila þegar bregðast þarf skjótt við.
„Það þarf að þétta netið og fjölga Tetra-sendum og vera með þá einnig á láglendi. Við erum með einn sendi fyrir okkur í Skagafirði. Hann er uppi á Tindastól í 700-800 metra hæð. Við getum ekki treyst einvörðungu á slíkt. Svo þarf að búa þannig um hnútana að þó að rafmagn fari af þá endist þeir lengur en í sólarhring. Það þarf öflugra varaafl,“ sagði Stefán.
„Þetta er langversta tilvik sem ég hef upplifað á mínum tuttugu árum hér,“ segir Þórhallur Ólafsson, framkvæmdastjóri Neyðarlínunnar, um truflanir sem urðu á fjarskiptum vegna rafmagnsleysis. „Nú þurfa allir aðilar að setjast yfir stöðu mála og gera ráðstafanir þannig að þegar þetta gerist næst verðum við betur undirbúin. Það þarf að tryggja að hér séu fjarskipti þó að rafmagnið fari og til þess þarf að gera víðtækar breytingar á varaafli.“