„Við þurfum Plan C“

Forsætisráðherra ber ís af fallinni raflínu.
Forsætisráðherra ber ís af fallinni raflínu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við vitum ekki til þess að skemmdir hafi orðið á fjarskiptamöstrum eða fjarskiptavirkjum,“ segir Hrafnkell V. Gíslason, forstjóri Póst- og fjarskiptastofnunar.

Hrafnkell fundaði með fulltrúum fjarskiptafyrirtækjanna til að meta stöðuna eftir óveðrið sem gengið hefur yfir landið. Víða var farsímasambandslaust vegna veðurs en ástæður þess eru raktar til rafmagnsleysis og í einhverjum tilvikum þess að krapi og snjór hafi sest á loftnet fjarskiptastöðva og truflað örbylgjusamband.

„Við höfum séð verri hvelli en þennan en það hefur verið staðbundið ástand. Afleiðingar þessa óveðurs ná frá austanverðum Vestfjarðakjálkanum og norður úr, langleiðina að Höfn. Þetta er helmingurinn af landinu og margir sem verða fyrir barðinu á ástandinu,“ segir Hrafnkell.

Hann segir að á þessum tímapunkti megi draga þá ályktun af atburðum liðinna daga að styrkja þurfi raforkukerfið. „Fjarskipti eru háð rafveitu. Það er lykilatriði að hér sé alltaf rafmagn.

Hins vegar veit ég ekki hvað myndi gerast ef hér yrði meiriháttar raforkuútfall. Við erum með varaafl til 24-48 tíma en hvað gerist ef meginfjarskiptakerfin fá ekki rafmagn til lengri tíma? Við þurfum Plan C, öryggisventil ef allt annað klikkar og við förum yfir í hamfarastjórnun. Það eru að mínu viti VHF-talstöðvar sem nú þegar eru í bátum, leigubílum og víðar. Við erum með alla innviði í það kerfi,“ segir Hrafnkell.

„Þetta er langversta tilvik sem ég hef upplifað á mínum tuttugu árum hér,“ segir Þórhallur Ólafsson, framkvæmdastjóri Neyðarlínunnar.

„Nú þurfa allir aðilar að setjast yfir stöðu mála og gera ráðstafanir þannig að þegar þetta gerist næst verðum við betur undirbúin. Það þarf að tryggja að hér séu fjarskipti þó að rafmagnið fari og til þess þarf að gera víðtækar breytingar á varaafli. Þá þarf að gera aðrar ráðstafanir til að halda kerfinu inni á hverju sem dynur.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka