Skjálftar upp á 3,6 stig

Kort Veðurstofa Íslands

Tveir skjálftar sem mældust 3,6  stig riðu yfir Reykjanesið skömmu fyrir klukkan 20 í kvöld og voru upptök beggja skammt suðaustur af Fagradalsfjalli.

Sá fyrri reið yfir klukkan 19:48:12. Upptök hans voru 2,7 km suðaustur af Fagradalsfjalli. Jarðskjálftinn fannst greinilega á höfuðborgarsvæðinu.

Að minnsta kosti þrír skjálftar yfir 2 stig hafa riðið yfir á síðustu mínútum.

Bjarki Friis, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir að síðdegis í dag hafi hrinunni sem hófst snemma í morgun að mestu verið lokið en tæplega 300 skjálftar mældust á þessum slóðum í dag. Allt bendir til þess að ný hrina sé hafin. Jarðskjálftar eru algengir á þessu svæði. Jarðskjálftahrina mældist 25.-27. júlí árið 2017 með um 600 skjálftum þar sem stærsti skjálftinn mældist 4 stig.

Fréttinni var breytt klukkan 20:11: Búið er að lækka jarðskjálftann úr 3,9 stigum í 3,6 stig en sérfræðingar á Veðurstofu Íslands eru að yfirfara skjálftana sem riðu yfir skömmu fyrir klukkan 20. 

Bætt við  klukkan 20:14 svo virðist sem báðir stærstu skjálftarnir hafi verið 3,6 stig en sá seinni reið yfir klukkan 19:58 og átti hann upptök sín 2,6 km SA af Fagradalsfjalli.

Það sem af er degi hafa mælst 16 jarðskjálftar sem eru yfir tveir á stærð á svæðinu í kringum Fagradalsfjall. Af þeim eru þrír yfir 3 stig, sá fyrsti í morgun klukkan 07:59 af stærð 3,5 og svo þessir tveir í kvöld sem voru báðir 3,6 stig.

Bætt við klukkan 8:26: Skjálfti sem mældist 3,1 stig reið yfir klukkan 20:17. Nú eru skjálftarnir orðnir 24 sem hafa verið yfir 2 stig í dag.

Uppfært klukkan 8:34: Sex jarðskjálftar sem eru yfir 3 stig hafa riðið yfir Reykjanesið í dag. Þar af fjórir á hálftíma í kvöld. Tveir þeirra eru 3,6 stig, einn 3,5 stig, sá fjórði er 3,4 stig og sá fimmti og sjötti riðu yfir klukkan 20:15:20 og 20:17:46 og reyndust báðir vera 3 stig.

Uppfært klukkan 20:55

„Jarðskjálftahrina hófst í morgun klukkan 07:59 með skjálfta af stærð 3,5 við Fagradalsfjall á Reykjanesskaga. Klukkan 19:48 og aftur kl. 19:57 urðu skjálftar, báðir 3,6 að stærð. Fleiri skjálftar mældust í kjölfarið, kl. 20:13 mældist skjálfti 3,4 og tveir af stærð 3 kl. 20:15 og 20:17. Um 300 skjálftar hafa orðið á svæðinu í hrinunni. Tilkynningar um að skjálftinn hafi fundist hafa borist frá byggð í grennd, t.d. Grindavík, Keflavík, höfuðborgarsvæðinu og Akranesi, Jarðskjálftar eru algengir á þessu svæði,“ segir á vef Veðurstofu Íslands. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert