Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra mælti fyrir fjölmiðlafrumvarpi sínu á Alþingi í kvöld, en frumvarpið kveður sem kunnugt er meðal annars á um endurgreiðslur af ritstjórnarkostnaði einkarekinna fjölmiðla sem uppfylla ákveðin skilyrði.
Málið hefur verið umdeilt innan ríkisstjórnarinnar og hafa nokkrir þingmenn Sjálfstæðisflokksins lýst yfir efasemdum um það.
Lilja sagði meðal annars í ræðu sinni að stuðningur ríkisins við einkarekna fjölmiðla ætti að efla blaðamennsku, vandaðan fréttaflutning og upplýsta umræðu. Þá væri frumvarpinu einnig ætlað að efla íslenskuna og viðhalda henni. Hún sagði endurgreiðslukerfi frumvarpsins í anda annarra kerfa sem stjórnvöld hefðu sett á laggirnar á Íslandi á undanförnum árum, meðal annars styrki til kvikmyndagerðar og bókaútgáfu.
„Þess er vænst að sá stuðningur sem frumvarpið gerir ráð fyrir geri fjölmiðlum kleift að efla ritstjórnir sínar, vera vettvangur skoðanaskipta og tjáningarfrelsis og með þeim hætti rækja hlutverk sitt sem einn af hornsteinum lýðræðisins,“ sagði Lilja.
Fylgjast má með umræðum um málið hér að neðan: