Nefnd um hæfni umsækjenda um dómarastarf hefur með nýrri umsögn sinni alfarið hafnað þeim vinnubrögðum er hún viðhafði sjálf í Landsréttarmálinu. Þetta segir Sigríður Á. Andersen, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag.
Nefndin skilaði í síðustu viku umsögn sinni um umsækjendur um lausa stöðu hæstaréttardómara. Bendir Sigríður á að nefndin sjái þar ekki ástæðu til að gera upp á milli þeirra þriggja umsækjenda sem metnir eru hæfastir, í samræmi við reikniformúlur, á þeim forsendum að „eðli máls samkvæmt [sé] samanburður á verðleikum þeirra flókinn og að þeir hafi á löngum ferli getið sér góðs orðspors hvert á sínu sviði svo ekki verði með góðu móti greint þar á milli“.
Segir Sigríður að þessi rökstuðningur sé nokkurn veginn samhljóða rökstuðningi hennar í Landsréttarmálinu, er hún lagði fram tillögu um að skipa fjóra dómara sem ekki höfðu verið metnir meðal þeirra fimmtán hæfustu í stöðurnar fimmtán. Þeir þrír umsækjendur sem metnir voru hæfastir nú voru einnig meðal umsækjenda um stöðu landsréttardómara árið 2017. Þá var fjórði umsækjandinn um stöðuna nú, en sem er ekki metinn meðal hæfustu, með 0,20 hærri einkunn en einn af þremenningunum sem metnir eru hæfastir nú. Til samanburðar munaði einungis 0,03 stigum á umsækjandum um stöðu landsréttardómara sem höfnuðu í 15. og 16. sæti en nefndin hafi ekki talið sambærilega hæfa. Ljóst megi því vera að nefndin hafi nú hafnað fyrri niðurstöðu sinni.