Jón Steinar Gunnlaugsson, fyrrverandi hæstaréttardómari, og Kristín Pálsdóttir, eiginkona hans, hafa stefnt hæstaréttardómaranum Karli Axelssyni vegna vegslóða við sumarbústaði hjónanna annars vegar og Karls hins vegar í Landssveit. Jón Steinar krefst þess að óskertur umferðarréttur hans um vegarslóða sem liggur við mörk lóðar Karls verði viðurkenndur en því er Karl mótfallinn.
„Þessi andstaða hans við þessu er einhver illfýsi í minn garð sem er algjörlega tilefnislaus því þetta er svo lítil umferð um þennan slóða þó þarna væru komnir upp sex bústaðir að það hálfa væri nóg,“ segir Jón Steinar.
mbl.is hefur fengið stefnuna afhenta en þar kemur fram að Jón Steinar hefði ætlað sér að skipta lóð sinni í sex hluta til þess að hvert barna þeirra Kristínar gæti fengið skika af jörðinni undir eigin bústað. Því mótmælti Karl sem telur að með því móti verði umferð um sameiginlegan vegslóða of mikil.
„Þetta er þannig að sveitarstjórnin sem var búin að taka fyrir deiluskipulagstillögu vegna okkar lóðar, hún tilkynnti okkur að vegna þessara andmæla frá Karli gæti hún ekki afgreitt það mál vegna þess að það væri deila um umferðarréttinn á lóðinni og efni hans,“ segir Jón Steinar.
Síðasta úrræðið hafi því verið að stefna Karli.
„Þá átti ég auðvitað engan kost annan en að fá leyst úr því álitaefni og það er greinilegt að maðurinn mótmælir því að ég njóti umferðarréttar vegna þessarar lóðar minnar um þennan vegslóða og ég varð að stefna honum til þess að fá viðurkenningu á því að ég nyti hans.“
Jón Steinar og Karl eignuðust landið saman árið 2004. Sama ár stofnuðu þeir saman lögfræðistofuna Nestor. Jón Steinar segir að hann hafi verið eins konar lærifaðir Karls og því sé framganga Karls með ólíkindum.
„Ég tók þennan dreng að mér sem nýútskrifaðan lögfræðing og gerði mann úr honum. Þetta er þakklætið sem ég fæ fyrir það. Það er alveg ótrúlegt hvernig menn hafa sem hafa álitið sér það í framavonum sínum að skapa einhverja afstöðu til mín, hvernig þeir haga sér. Þetta er eitt ljótasta dæmið um það vegna þess að ég er velgjörðamaður þessa manns eins og allir sem til þekkja vita.“
Jón Steinar hefur átt í deilum við hæstaréttardómara áður. Nú síðast frammi fyrir rétti en þá stefndi Benedikt Bogason hæstaréttardómari Jóni Steinari fyrir meiðyrði. Jón Steinar var sýknaður í því máli fyrir Landsrétti fyrir um mánuði.
„Karl snýst svona gegn mér og hefur örugglega gert það til þess að fá dómarastarf í Hæstarétti vegna þess að þar ræður elítan því hverjir verða nýir dómarar. Hann varð að verða óvinur minn til þess að eiga einhvern möguleika á því.“