„Ég get gengið hægt en þetta er svolítið sárt“

„Þetta gekk gríðarlega vel fyrst en svo er þetta búið …
„Þetta gekk gríðarlega vel fyrst en svo er þetta búið að vera svona...“ segir John Snorri. Ljósmynd/Aðsend

„Þetta gengur allt í lagi,“ segir John Snorri Sigurjónsson við blaðamann sem sló á þráðinn til hans snemma á níunda tímanum, þegar hann hafði nýlokið við sína sjöttu ferð upp á Esjuna síðan í gærkvöldi.

„Þetta gekk gríðarlega vel fyrst en svo er þetta búið að vera svona... það er gríðarlega mikill mótvindur, maður gengur upp svona eins og maður sé skíðastökkvari. Svo er ég eitthvað að vandræðast með hnéð á mér,“ segir John Snorri. Hann er einni ferð á eftir áætlun, sem telur alls 14 ferðir upp og niður Esjuna.

Um er að ræða lokahnykkinn í undirbúningi fjallagarpsins fyrir ferð hans á K2, næsthæsta fjall veraldar. Hann ætlar að verða fyrstur manna til að komast á topp fjallsins að vetrarlagi.

John Snorri lagði af stað klukkan 18 í gærkvöldi og gerði ráð fyrir að ganga til klukkan 22 í kvöld, alls 28 klukkustundir, en þegar blaðamaður heyrði í honum taldi hann óvíst hvort hann myndi klára.

Með fólk með sér í öllum ferðum nema einni

„Ég veit það ekki. Félagi minn er að koma með Voltaren og eitthvað. Ég get gengið hægt en þetta er svolítið sárt. Ég er bara mest hræddur um að vera að skemma fyrir mér. Ég vil halda mér góðum fyrir K2,“ útskýrir John Snorri.

Hópur sem gekk með John Snorra í gærkvöldi.
Hópur sem gekk með John Snorra í gærkvöldi. Ljósmynd/Aðsend

Hann var þó að leggja ótrauður af stað í sína sjöundu ferð þegar blaðamaður sló á þráðinn. Hann gengur þó ekki einn því öllum er frjálst að ganga með honum, auk þess sem hægt er að leggja honum lið í fjáröfluninni fyrir K2. „Ég er búinn að vera með fólk með mér í öllum ferðum nema einni. Annars hafa verið einn til sex manns með mér í hverri ferð. Í ferðinni klukkan tólf var ég svolítið lengi því hnéð var alveg að sliga mig. Þá var ég kominn niður 2:20 og ákvað að bíða með næstu ferð til klukkan 3 og gekk einn.“

„Svo kom ég niður um hálfsex og fór aftur klukkan sex, þá voru þrjár stelpur sem komu með mér. Þær ganga alltaf Esjuna á fimmtudögum en ákváðu að breyta því og fara í dag,“ segir John Snorri að lokum, rétt áður en hann leggur af stað í ferð númer sjö upp að Steini.

Þeim sem vilja leggja John Snorra lið er bent á styrkt­ar­reikn­ing 0549-26-000052, kt 200673-5499.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert