Fánýtt að taka RÚV ekki með í reikninginn

Páll Magnússon, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður allsherjar- og menntamálanefndar.
Páll Magnússon, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður allsherjar- og menntamálanefndar. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Þetta er auðvitað umdeilt og viðkvæmt mál,“ segir Páll Magnússon, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður allsherjar- og menntamálanefndar. Fjölmiðlafrumvarp mennta- og menningarmálaráðherra var rætt í nefndinni í morgun eftir fyrstu umræðu á þingi í gærkvöldi.

Páll segir að nefndin hafi í morgun sent út umsagnarbeiðnir og þeir sem eigi hagsmuna að gæta vegna frumvarpsins hafi frest til 10. janúar til að senda inn umsagnir.

Samkvæmt frumvarpinu geta ritstjórnir fengið allt að 18% af ritstjórnarkostnaði endurgreiddan og hafa 400 milljónir verið eyrnamerktar í fjárlögum næsta árs til stuðnings við fjölmiðla. Páll segir frumvarpið ákveðna viðleitni til að bregðast við erfiðri rekstrarstöðu einkarekinni fjölmiðla. 

„Frumvarpið er í sjálfu sér að ýmsu leyti ágætt en það eru þarna nokkur atriði sem nefndin þarf örugglega að hyggja að,“ segir Páll. Hann spyr til að mynda hvort 18% af ritstjórnarkostnaði ætti að vera lægra og eins og hámarksgreiðslan ætti að vera hærri. 

Munur á fréttamiðli og bloggsíðu

„Það er ýmislegt sem þarfnast skoðunar. Hvar verða mörkin dregin. Hvar á að setja þröskuldinn sem miðlarnir þurfa að yfirstíga til þess að vera gjaldgengir inn í þennan styrk. Það verður að gera skýran greinarmun á því hvort um almennan fréttamiðil er að ræða eða einhvers konar útgáfu af bloggsíðu sem er ekki til annars en að vera skoðanavettvangur fyrir þá sem eiga hana eða reka. Það er mikill munur á því tvennu,“ segir Páll.

Páll, sem er fyrrverandi útvarpsstjóri, sagði í umræðum á Alþingi seint í gærkvöldi að það væri varla hægt að fjalla um rekstrarstöðu einkarekinna fjölmiðla án þess að fjalla um stöðu Ríkisútvarpsins.

„Það er mín afdráttarlausa skoðun að ekki sé hægt að grípa til aðgerða, skoða rekstrarumhverfi fjölmiðla á Íslandi án þess að taka tillit til umfangs RÚV á auglýsingamarkaði sem er helsta tekjulind þessara einkareknu miðla. Að ætla sér að líta á þennan markað án þess að taka með í reikninginn þann aðila sem er stærsti einstaki aðilinn á auglýsingamarkaði er fánýtt,“ segir Páll, sem gerir fastlega ráð fyrir því að þau mál verði „tækluð“ í nefndinni.

„Ég treysti því að ráðherra fari nú að huga að fyrstu skrefum að taka RÚV af auglýsingamarkaði samhliða því að þetta frumvarp um einkarekna fjölmiðla verði afgreitt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert