Ísland á toppnum ellefta árið í röð

Kynjabilið mælist minnst á Íslandi, ellefta árið í röð, samkvæmt …
Kynjabilið mælist minnst á Íslandi, ellefta árið í röð, samkvæmt nýrri skýrslu Alþjóðaefnahagsráðsins. mbl.is/Eggert

Ísland trónir á toppi lista Alþjóðaefnahagsráðsins yfir lönd í heiminum þar sem kynjajafnrétti er mest, ellefta árið í röð. 

Kynbundið jafnrétti í 153 löndum heimsins er tekið til skoðunar í skýrslunni, Global Gender Gap Report, að þessu sinni, fimm fleiri en í fyrra. Unnið er út frá 13 breytum á fjórum sviðum tilverunnar, það er heilsu, menntun, atvinnuþátttöku og efnahags- og stjórnmálaþátttöku. 

Norðurlöndin eru fyrirferðamikil í efstu sætum listans en Noregur er í öðru sæti á eftir Íslandi, rétt eins og í fyrra og árið þar áður. Finnland er í þriðja sæti og Svíþjóð í því fjórða en löndin skipta um sæti frá því í fyrra. Níkaragva er í fimmta sæti. 

Af löndunum 149 voru 101 sem tókst að minnka kynjabilið milli ára. Albanía, Eþíópía, Malí, Mexíkó og Spánn minnkuðu bilið einna helst. 

Topp tíu listinn yfir kynjajafnrétti í heiminum samkvæmt skýrslu Alþjóðaefnahagsráðsins, …
Topp tíu listinn yfir kynjajafnrétti í heiminum samkvæmt skýrslu Alþjóðaefnahagsráðsins, World Economic Forum. Grafík/Global Gender Gap Report

99 og hálft ár þar til kynjajafnrétti verður náð

Jafnréttið er metið á prósentukvarða þar sem 100% táknar fullkomið jafnrétti. Ísland bætir hlutfall sitt um 1,8% og er efst, sem fyrr segir, með 87,7% jafnrétti. Meðaltal á heimsvísu er 68,6%. Kynjabilið er mest í Pakistan, Íran og Jemen. 

99 og hálft ár er þar til kynjajafnrétti verður náð í heiminum og er það í fyrsta skipti frá því að skýrslan var unnin sem talið er að það muni taka minna en 100 ár. Má það einna helst rekja til aukinnar stjórnmálaþátttöku kvenna en konur eru nú rúmlega fjórðungur þingmanna heims, samanborið við 24% í fyrra.

Kynjabilið minnkar hins vegar á efnahagssviðinu og má það einna helst rekja til áhrifa tækniþróunar á kynin, en tæknivæðing í smásöluverslun kemur harðar niður á konum að því er segir í skýrslunni. 257 ár eru þar til efnahagslegt misrétti verður leiðrétt að fullu, en samkvæmt skýrslunni í fyrra voru árin 202. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert