Höskuldur Daði Magnússon Þorgerður Anna Gunnarsdóttir Hjörtur J. Guðmundsson
Enn er víða unnið að viðgerðum á raflínum í kjölfar ofsaveðursins sem gekk yfir í liðinni viku og eftirkasta þess. Ljóst er orðið að óveðrið olli miklu tjóni þótt ekki hafi enn gefist tími til að meta það til fulls.
„Við vitum að tjón hleypur væntanlega á hundruðum milljóna. Nú erum við að bjarga rafmagni. Kostnaður er að hlaðast upp en við tökumst á við hann seinna. Það er sömuleiðis mikið tjón hjá viðskiptavinum okkar. Við munum skoða þetta tjón betur síðar,“ segir Tryggvi Þór Haraldsson, forstjóri Rarik, í samtali við Morgunblaðið.
Rafmagn fór af í Skagafirði í gærmorgun. Í fyrrinótt var unnið að hreinsun á tengivirki í Hrútatungu. Undir morgun í gær fór virkið aftur út vegna seltu. Virðist sem högg hafi komið á kerfið í kjölfarið og sló meðal annars út á Sauðárkróki og Hofsósi.
Þrátt fyrir rafmagnsleysið í síðustu viku var heitt í öllum húsum í Skagafirði ólíkt því sem gerðist víða annars staðar þar sem rafmagnslaust varð. Ástæða þess er að varaaflstöðvar hafa verið í öllum dælustöðvum Skagafjarðarveitna frá upphafi.
Í gær voru enn keyrðar díselvélar á Dalvík, fjórar frá Rarik og ein í varðskipinu Þór. Sama gilti með Raufarhöfn, Þórshöfn, Bakkafjörð og fleiri staði, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.