Tugir hrossa hafa drepist vegna veðurofsans sem gekk yfir landið í síðustu viku. Þetta segir Sigríður Björnsdóttir, dýralæknir hjá Matvælastofnun, í samtali við mbl.is eða á bilinu 60-80. Hún segir góðu fréttirnar þær að haft hafi verið uppi á stórum hluta þeirra tuga hrossum sem óttast var um og að ekkert hross hafi drepist í dag.
Megnið af þeim hrossum sem óttast hafi verið um hafi þannig fundist heil á húfi. „Það eru líka mjög góðar fréttir að þau hross sem voru talsvert veik eru á batavegi. Þannig að við erum ekki að missa þau sem við héldum kannski að við myndum gera,“ segir Sigríður. Fyrir vikið virðist vera að það sé komið fyrir það mesta í þessu.
„Við vorum pínu hrædd um það að þetta ætti eftir að verða miklu verra en það er ekki að gerast. Þannig að kúfurinn er nú kominn,“ segir hún. Hins vegar þurfi að tala varlega enda sé enn hríð í Húnavatnsýslunum þar sem ástandið hefur verið hvað verst. Margt hafi lagst á eitt í óveðrinu til þess að gera stöðuna mjög erfiða.
Mikill meirihluti hrossa sem fór í gegnum óveðrið hafi hins vegar lifað það af eða 99%. Það dragi hins vegar ekki úr alvarleika málsins. Ekki hafi skapast jafn slæmt ástand um áratuga skeið. Sigríður segir ekkert benda til annars en að bændur hafi gert allt sem í þeirra valdi hafi staðið til þess að undirbúa sig fyrir veðurhaminn.
Hins vegar hafi það að mörgu leyti komið á óvart hversu slæmt veðrið var. Það sé bændum enn fremur mjög þungbært að hafa misst dýrin sín. Hefð sé fyrir því að hross gangi úti á Íslandi og hafi verið frá landnámi. Ekki sé til húsakostur fyrir hrossin og þau hafi þörf fyrir sitt rými. Vandséð því hvað hægt hefði verið að gera meira.
Ríkisútvarpið fjallaði áður um málið.