„Við hefðum getað reddað sjúkrahúsinu“

Hvammstangi. Sjúkrahúsið þurfti að glíma við rafmagnsleysi.
Hvammstangi. Sjúkrahúsið þurfti að glíma við rafmagnsleysi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég nefni þetta bara sem eitt dæmi en þau eru auðvitað fleiri. Þetta er dálítið svekkjandi, sérstaklega varðandi sjúkrahúsið, því við vitum að við hefðum getað reddað því,“ segir Tryggvi Þór Haraldsson, forstjóri Rarik.

Í eftirköstum óveðursins er horft til raforkukerfisins og þess hve erfiðlega hefur gengið að tryggja rafmagn víða um land, einkum á Norðurlandi. Meðal þess sem bent hefur verið á er að tregða landeigenda hafi víða komið í veg fyrir að hægt væri að leggja rafstrengi í jörð. Jarðstrengir þola almennt betur álag af völdum óveðurs en loftlínur.

Dæmið sem Tryggvi vísar til er af 1,5 kílómetra kafla í Víðidal þar sem enn er loftlína. Allt í kring hefur strengurinn verið lagður í jörð. Segir forstjórinn að sú ákvörðun hafi verið tekin í aðdraganda óveðursins að taka umrædda línu úr sambandi svo þessi kafli setti ekki út kerfi rafstrengja í Víðidal og nágrenni. „Kerfi sem annars hefði verið hægt að nota til að hjálpa Hvammstanga. Svo á miðvikudeginum ætluðum við að reyna að nýta þessa línu, setja hana inn að nýju, en þá var þessi línustubbur ísaður og við gátum ekki sett hann inn,“ segir Tryggvi í umfjöllun um afleiðingar óveðursins í Morgunblaðinu í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert