Áhyggjulaus yfir „bænaskjölum“ Ásmundar

Ásmundur Friðriksson og Þórhildur Sunna Ævarsdóttir.
Ásmundur Friðriksson og Þórhildur Sunna Ævarsdóttir. mbl.is/Samsett mynd

„Ég hef nú ekki miklar áhyggjur af þessum bréfaskrifum og bænaskjölum hans Ásmundar Friðrikssonar,“ segir Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata. Ásmundur sendi forseta Evrópuráðsþingsins bréf þar sem hann vakti athygli á því að Þórhildur Sunna hefði gerst brot­leg við siðaregl­ur fyr­ir alþing­is­menn, fyrst þing­manna.

„Það er ekki bannað að tala um spillingu í Evrópuráðsþinginu, öfugt við Alþingi Íslendinga,“ segir Þórhildur Sunna. 

Um­rædd um­mæli Þór­hild­ar Sunnu féllu í viðtali í Silfr­in­u 25. fe­brú­ar 2018. Komst hún svo að orði að uppi væri „rök­studd­ur grun­ur“ um að Ásmund­ur Friðriks­son hefði „dregið sér fé, al­manna­fé“ þegar rætt var um akst­urs­greiðslur til Ásmund­ar. 

Þórhildur Sunna kveðst ekki hafa neinar áhyggjur af stöðu sinni en hún er vara­formaður Íslands­deild­ar Evr­ópuráðsþings­ins og formaður laga- og mann­rétt­inda­nefnd­ar Evr­ópuráðsþings­ins.

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata.
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Það er málfrelsi í Evrópuráðinu sem er einmitt heimili Mannréttindadómstóls Evrópu og það er alveg augljóst að þessi úrskurður gegn mér skerðir mitt málfrelsi. Ef eitthvað ætti að vekja athygli Evrópuráðsins er það kannski það; að mitt málfrelsi hafi verið skert þegar ég talaði um spillingu,“ segir Þórhildur Sunna.

Þórhildi Sunnu þykja þessi bréfaskrif hálf aumkunarverð og veltir fyrir sér hvað standi á bak við þau:

„Sérstaklega tímasetningin hjá Ásmundi. Nú er talsvert langt síðan að úrskurðurinn féll en hann opinberar þetta ekki fyrr en daginn eftir að þingið fer í jólaleyfi. Þetta er líka mjög stutt eftir að ég fór fram á frumkvæðisathugun á félaga hans Kristjáni Þór Júlíussyni þannig að ég velti því fyrir mér hvort Sjálfstæðisflokkurinn standi að baki honum í þessum bréfaskrifum sínum eða hvort hann sé sjálfur í vandræðum með að losna við reiðina gagnvart mér.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert