Búinn á því kortér í jól

Stefán Máni Sigþórsson rithöfundur hefur sent frá sér 18 skáldsögur, …
Stefán Máni Sigþórsson rithöfundur hefur sent frá sér 18 skáldsögur, þar af flestar glæpasögur úr rammíslenskum undirheimum. Hann rifjar upp jólahátíðir sem hann eyddi í rúminu, gjörsamlega þrotinn kröftum, eftir að hafa komið nýjasta verkinu frá sér. Nú eru breyttir tímar í lífi höfundarins sem þó játar að nætursvefninn eigi það til að vera stuttur. Ljósmynd/Árni Sæberg

„Hvað boðar nýárs blessuð sól?“ spurði séra Matthías Jochumsson í kvæði sínu og svaraði því til í næsta vísuorði að sól þessi boðaði náttúrunnar jól og flytti að auki líf og líknarráð. Sú er vonandi upplifun margra, en á Íslandi hrærist þó sú stétt sem leggur allt sitt undir á altari skáldskaparins, pennans og bókhneigðrar þjóðar. Þetta eru rithöfundar, fólkið á bak við milljón íslenska jólapakka og enn fleiri upplifanir og minningar. Öfundsvert hlutskipti eður ei? Stefán Máni Sigþórsson glæpasagnahöfundur féllst á að deila sinni upplifun með mbl.is.

„Nú hefur margt breyst hjá mér, ég er kominn í fulla dagvinnu og er því ekki að rassskellast eins mikið í upplestrum og kynningum og ég var alltaf. Ég mæti bara í vinnuna á morgnana og er farinn að hugsa um allt annað en jólabókaflóðið.“

Þessu svarar Stefán Máni, inntur eftir jólaupplifun íslenska rithöfundarins og því hvort helgi jólanna hafi að einhverju leyti fallið í skugga pennans og markaðstorgsins. Stefán Máni játar að á árum áður hafi hans jól einkum falist í því að liggja aðframkominn í rúminu eftir síðustu bók.

Gaman og mjög spennandi

„Þetta er aðallega álag og stress. Ég var rosalega mikið í því að lesa upp og fara í mörg viðtöl. Maður var oft bara búinn á því kortér í jól. Það var mjög algengt að ég hrundi bara í rúmið og var veikur öll jólin, búinn á líkama og sál,“ rifjar þessi tæplega fimmtugi Ólafsvíkingur upp, sem lagt hefur að baki átján skáldsögur á 23 árum og þrisvar hlotið íslensku glæpasagnaverðlaunin Blóðdropann auk þess að hafa oftar verið tilnefndur til þeirra og einnig til norrænu glæpasagnaverðlaunanna Glerlykilsins fyrir skáldsöguna Svartur á leik frá 2004 sem þó var ekki skáldskapur einn heldur að sumu leyti byggð á köldum íslenskum veruleika.

„Þetta er gaman og mjög spennandi,“ viðurkennir Stefán þó, „en líka stressandi af því að maður veit raunverulega aldrei hvernig salan gengur fyrr en á nýju ári einhvern tímann. Maður einbeitir sér bara að gleðinni, það er auðvitað alltaf gaman að gefa út bók, kynna hana fyrir lesendum, fylgja henni eftir og það allt. Maður reynir að detta ekki inn í stressið og geðveikina. Þetta er dálítið stress og geðveiki,“ segir hann og birtir um stund yfir dimmum og alvarlegum raddblænum.

Stefán Máni hefur þó nýverið söðlað um þótt hann sé hvergi nærri hættur að skrifa. Hvað er hann þá að gera á daginn? „Ég er bara viðgerðakall, er að keyra um á sendiferðabíl og gera við vélar úti um allan bæ.“ Hann heldur þó fast um pennann og er hvergi nærri hættur að skrifa. Hvernig hefst vinnan við næstu bók, fer allt árið í hana?

„Já, ég er alltaf eitthvað að skrifa, annaðhvort að punkta niður hugmyndir eða skrifa næstu bók,“ játar Stefán og bætir því við að mikil vinna fari í allt ferlið kringum skrifin, allt frá hrárri hugmynd til mótaðs texta. Blaðamanni leikur þá forvitni á að vita hvernig lífsstíll rithöfundarins komi heim og saman við fulla vinnu á öðrum vettvangi.

„Enda ábyggilega á geðdeild“

„Úff,“ andvarpar Stefán og játar í kjölfarið að vissulega hafi sólarhringurinn tekið á sig nýjar víddir. „Ég vakna mjög snemma á morgnana til að skrifa,“ svarar hann með þungri áherslu á orðið mjög, „og er svo mættur í vinnuna klukkan átta þannig að ég fer stundum snemma að sofa á kvöldin og stundum ekki, ég er farinn að sofa frekar lítið og enda ábyggilega á einhverri geðdeild fyrir rest, en hvenær það verður veit ég ekki,“ segir Ólafsvíkingurinn og enn er tjöldunum svipt eitt andartak frá kímninni sem dimm bassaröddin reynir að fela en tekst ekki alltaf.

Hörður Grímsson lögreglumaður er hluti af Stefáni Mána, þó reyndar …
Hörður Grímsson lögreglumaður er hluti af Stefáni Mána, þó reyndar svolítið ýktur hluti. Höfundurinn segist ekki hafa haft mikið fyrir að skapa Hörð sem persónu, hann hafi í raun bara komið. Ljósmynd/Ófeigur Lýðsson

Talið berst að persónunni Herði Grímssyni lögreglumanni sem hefur í síðustu skáldsögum Stefáns Mána verið honum ámóta skilgetið afkvæmi og Bjartur í Sumarhúsum skáldinu frá Gljúfrasteini. Hörður er almennt lítt við alþýðuskap, hrjúfur, hryssingslegur, langt leidd fyllibytta gædd ófreskigáfum, en þó einhvern veginn heillandi í sínum tröllslega grófgerða heimi. Í nýjustu skáldsögu Stefáns Mána, Aðventu, kemur kvíði Harðar fyrir jólunum berlega fram, ljósi og friði flestra en myrkviðum annarra.

„Hörður er hluti af mér, því verður ekki neitað,“ játar höfundurinn og hlær við, „en hann er mjög ýktur hluti af mér. Það sem er að trufla Hörð er að hann hefur misst hvort tveggja foreldra sína og systkini þannig að hans jól eru þannig að hann upplifir sig dálítið einan og yfirgefinn. Jólin eru hátíð fjölskyldunnar þótt hann eigi nú ástkæra sambýliskonu og allt það,“ segir Stefán og kemur að upphaflegu stefi viðtalsins, jólum rithöfundarins.

„Hann bara steig fullmótaður fram“

„Sjálfur var ég raunverulega ekki mikið jólabarn fyrr en ég eignaðist sjálfur börn,“ játar höfundurinn. „Fyrir mér í dag snúast jólin algjörlega um börnin og ég efast um að ég nennti þessu ef ég ætti ekki börn, en þetta er æðislegt þegar maður upplifir jólin gegnum eftirvæntingu og gleði barna, þá kemur þetta.“

Blaðamaður afræður þegar hér er komið sögu, og af einskærri forvitni þess sem lesið hefur allar bækur Stefáns Mána utan tvær, að snúa út úr jólaumræðunni sem hann sjálfur þó skóp sem leiðarstef og tilefni viðtals. Hvernig verða persónur á borð við Hörð Grímsson til í hugskoti íslensks rithöfundar?

„Það er rosalega erfitt að útskýra það. Upphaflega bjó ég hann bara til eins og hverja aðra persónu sko,“ svarar höfundurinn og á greinilega í vök að verjast til að byrja með. „En af hverju hann er eins og hann er, ég eiginlega veit það ekki, hann bara steig fullmótaður fram, var strax risi að vexti og rauðhærður, frá Súðavík, og hann bara kom einhvern veginn til mín mikið til fullskapaður,“ segist Stefáni frá og bætir því við að harmsaga Harðar hafi nánast fylgt honum sjálfkrafa, snjóflóðið, missir ættingja, skyggnigáfan og allar síðari sálarflækjur lögreglumannsins rauðhærða.

Kemur með nafninu

„Ég bjó hann ekkert svo mikið til, ég í rauninni bara gaf honum nafn og hleypti honum lausum og mér finnst mjög auðvelt að skrifa um hann, allt sem hann segir og gerir rennur mjög auðveldlega upp úr mér, hann er bara einhvern veginn á sveimi inni í hausnum á mér,“ segir Stefán Máni af sannfæringarkrafti og ástríðu sem engum áheyranda gæti dulist. „Ég er ekkert hundrað prósent viss um að ég hafi búið hann til, ég held að hann hafi bara alltaf verið til,“ eru lokaorð Stefáns Mána um rauðhærða bergrisann Hörð Grímsson þótt öruggt megi teljast að hvorugur þeirra sálufélaganna hafi sagt sitt síðasta orð.

Þessi tæplega fimmtugi Ólafsvíkingur hefur fengist við ritun skáldsagna tæpan …
Þessi tæplega fimmtugi Ólafsvíkingur hefur fengist við ritun skáldsagna tæpan aldarfjórðung en það var árið 1996 sem hann sendi frá sér sína fyrstu skáldsögu, Dyrnar að Svörtufjöllum. Stefán Máni hefur þrisvar hlotið glæpasagnaverðlaunin Blóðdropann og einu sinni verið tilnefndur til norrænu glæpasagnaverðlaunanna Glerlykilsins. Ljósmynd/Golli/Kjartan Þorbjörnsson

Forvitni blaðamanns er að vissu leyti svalað, þó ekki með öllu. Hvernig fæðir íslenskur glæpasagnahöfundur persónur sínar í heim letursins? Nánast af handahófi, þó ekki alveg, er Stefán Máni spurður út í lykilpersónu skáldsögunnar Svartur á leik frá 2004, Stebba sækó. Hvaðan spretta slíkir menn?

„Yfirleitt byrjar þetta með því að maður hefur ákveðna tilfinningu fyrir því hvernig persóna þetta á að vera, en ég byrja oft á að finna nafnið og vanda mig svolítið við það, eyði stundum dálitlum tíma í það hvað persónur eiga að heita. Þannig varð Stebbi sækó til, þegar ég var kominn með nafn á hann var eftirleikurinn í raun auðveldur,“ segir Stefán Máni hikandi og hugsar sig um við hvert fótmál. Kannski skiljanlega, enda persónusköpunin innstu vé margs rithöfundarins. „Þegar nafnið kemur og ég finn að allt hitt er rétt þá kemur allt hitt sjálfkrafa.“ Hann játar þó að margar persónur hans eigi sér ákveðnar fyrirmyndir.

„Þetta geta verið persónur sem veita manni innblástur, þá byggir maður á einhverju sem maður þekkir,“ segir Stefán Máni íbygginn og leggur að lokum áherslu á að nöfn skipti hann miklu máli. „Nafnið segir manni eitthvað,“ staðhæfir rithöfundurinn.

Að hugsa aftur á bak

Stefán Máni hefur, eins og fram kom hér að ofan, hlotið glæpasagnaverðlaunin Blóðdropann í þrígang og einu sinni verið tilnefndur til norrænu verðlaunanna Glerlykilsins. Ljóst er að lyklar opna dyr og dropar hola steina. Þetta gerist þó ekki sjálfkrafa. Blaðamann fýsir undir lokin að vita hvernig söguþræðirnir vitrast Stefáni Mána í skáldskapnum. Svartur á leik á sér djúpan hljómgrunn í íslenskum fíkniefnaheimi auk þess sem í nokkrum nýrri skáldsögum Stefáns hafa innflytjendur af ýmsum þjóðernum leikið stækkandi hlutverk, rétt eins og í íslensku þjóðfélagi raunveruleikans. Hvernig koma sögurnar til hans?

„Þetta er voðalega misjafnt,“ segir Stefán, „þetta getur verið eitthvað sem maður les um, til dæmis bara einhver frétt eða umræða í þjóðfélaginu, en stundum er þetta bara einhver einföld hugmynd, eins og í Aðventu, þar sá ég bara fyrir mér eitthvert atriði í Smáralind, sem er undir lok bókarinnar, og svo fer ég bara að hugsa aftur á bak, hvernig gat þetta átt sér stað, hvað var búið að gerast þannig að þessar persónur enduðu þarna á þennan hátt?“ spyr hann og bætir því við að leiðirnar að góðri sögu geti vissulega legið víða.

„Ef maður líkir þessu við skák fer maður að sjá …
„Ef maður líkir þessu við skák fer maður að sjá fyrir sér ákveðið endatafl og fer svo að hreyfa mennina aftur á bak og reyna að komast að því hvernig þetta byrjaði allt saman, hver var fyrsti leikurinn og hvað gerir svartur þegar hann átti leik og svo framvegis,“ segir Stefán Máni, inntur eftir því hvernig söguþræðir bóka hans verði til. Ljósmynd/Styrmir Kári

„Þetta er bara eins og snjóbolti sem fer að rúlla, maður fer að pæla í öðrum persónum og hvernig þetta tengist. Þetta tekur tíma en í upphafi getur þetta verið sáraeinföld hugmynd sem svo tekur að breytast og þróast,“ útskýrir Stefán og rökstyður með vísun í eigin skáldsögu.

„Ef maður líkir þessu við skák fer maður að sjá fyrir sér ákveðið endatafl og fer svo að hreyfa mennina aftur á bak og reyna að komast að því hvernig þetta byrjaði allt saman, hver var fyrsti leikurinn og hvað gerir svartur þegar hann átti leik og svo framvegis,“ segir Stefán hugsi með ótvíræðri skírskotun.

Bullar ekki og ruglar í kvikmyndahandriti

Botninn er sleginn í viðtalið með verstu klisju allra viðtala, þannig er það bara stundum. Nú eru rúm 23 ár liðin síðan Stefán Máni Sigþórsson, þá óþekktur ungur rithöfundur frá Ólafsvík, nú víðlesinn um Ísland allt og reyndar víða um heim, gaf út sína fyrstu af átján skáldsögum og þá á eigin kostnað, Dyrnar að Svörtufjöllum. Hvernig hefur rithöfundur frá Ólafsvík, sem stimplað hefur sig rækilega inn í íslenskan og alþjóðlegan glæpasagnamarkað, að eigin mati þróast og þroskast sem höfundur á tæpum aldarfjórðungi?

„Ég er aðallega orðinn flinkari, ég á auðveldara með að skrifa. Þetta er svo mikil þjálfun, þetta var alltaf þannig að maður skrifaði og skrifaði og skrifaði og svo enduðu alltaf þrjátíu, fjörutíu prósent í ruslinu,“ segir Stefán eftir að hafa tekið undir þá skoðun blaðamanns að um klisjuspurningu væri að ræða.

„Núna vinn ég raunverulega hægar en eiginlega endar ekkert í ruslinu. Maður fær tilfinningu fyrir því hvað virkar og hvað virkar ekki,“ segir Stefán Máni. „Reyndar var það alveg ævintýri kringum bíómyndina Svartur á leik sem hafði mikil áhrif á mig og ég lærði svo mikið af því ferli. Að skrifa bíómyndahandrit er miklu erfiðara, þú getur ekkert verið að bulla og rugla þar,“ segir rithöfundurinn og leyfir sér í fyrsta skipti í þessu viðtali að hlæja innilega en skiptir jafnharðan yfir í tón hins raunsæja atvinnumanns:

„Þarna lærði ég svo mikið að vega og meta hvað virkar og hvað virkar ekki, hverju var hent og hverju á að halda, maður svona þjálfast bara einhvern veginn. En ég held samt að ég hafi ekkert raunverulega breyst,“ segir Stefán Máni Sigþórsson, glæpasagnahöfundur frá Ólafsvík, og á þeim nótum lýkur fróðlegu spjalli um jól, persónur, söguþræði og raunveruleika íslenska rithöfundarins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert