Meinað áframhaldandi nám vegna kvíðalyfja

Ólafía Kristín hefur starfað sem lögregluþjónn frá 1. febrúar 2019.
Ólafía Kristín hefur starfað sem lögregluþjónn frá 1. febrúar 2019. Ljósmynd/Aðsend

„Ég er örygglega ekki ein í þessari stöðu. Ég vil bara vekja þetta til umræðu þannig að fólk átti sig á því hvað er í gangi innan skólans,“ segir Ólafía Kristín Norðfjörð, starfandi lögreglukona og nemandi á fyrsta ári í lögreglufræðum við Háskólann á Akureyri.

Ólafía Kristín hefur hins vegar tekið sín síðustu lokapróf, að minnsta kosti í bili, vegna þess að hún fær ekki að halda áfram námi því hún fékk ekki inngöngu í starfsnám lögreglunnar vegna þess að þegar hún sótti um var hún á kvíðalyfinu Sertral. Landssamtök Geðhjálpar hafa sent frá sér yfirlýsingu vegna málsins.

Starfsnám lögreglu er á vegum Mennta- og starfsþróunarseturs lögreglunnar (MSL) og að sögn Ólafíu Kristínar mat trúnaðarlæknir á vegum setursins það svo að hún gæti illa staðist álag vegna inntöku lyfsins. Nýlega var tekinn upp klásus í lögreglufræðunum við HA og geta aðeins þeir 40 sem komast inn í starfsnám lögreglu haldið áfram háskólanáminu. Sú ákvörðun var tekin um miðja þessa önn, sem Ólafía Kristín segir að hafi komið mörgum í opna skjöldu. 

Nýlega var tekinn upp klásus í lögreglufræðunum við HA og …
Nýlega var tekinn upp klásus í lögreglufræðunum við HA og geta aðeins þeir 40 sem komast inn í starfsnám lögreglu haldið áfram háskólanáminu. Ljósmynd/Aðsend

„Það voru margir sem bjuggust við því að þó þeir kæmust ekki í starfsnám gætu þeir haldið háskólanáminu áfram. Strax í september vissi ég að ég var ekki að fara að halda áfram,“ segir Ólafía Kristín, sem hyggst halda áfram í starfi sínu sem lögreglukona og ætlar að sækja aftur um nám í lögreglufræðum.

Fordómar og fáfræði

Í samtali við Vísi vegna málsins sagði Ólafur Örn Bragason, forstöðumaður MSL, að krafa sé gerð um það í lögreglulögum að umsækjendur séu líkamlega og andlega heilbrigðir. Ólafía Kristín setur spurningarmerki við það að allir sem séu á kvíðalyfjum séu andlega óheilbrigðir. Henni gekk vel í skólanum og segist hafa sýnt fram á að hún geti höndlað álagið þar sem og í starfi, þar sem hún hafi ekki tekið einn heilan veikindadag síðan hún hóf störf hjá lögreglunni 1. febrúar. „Þetta eru fordómar fyrir lyfjum, ég veit ekki hvernig öðruvísi á að orða það, fordómar og fáfræði.“

Landssamtök Geðhjálpar hafa sent frá sér ályktun vegna máls Ólafíu Kristínar og segja að það að leita sér aðstoðar vegna geðrænna áskorana eigi og megi aldrei vera notað gegn fólki. 

Ólafía Kristín greindi frá málinu á Facebook á sunnudag og hefur fundið fyrir miklum stuðningi. Hún hefur þó ekkert heyrt frá skólastjórnendum eða forstöðufólki MSL og telur óvíst hvort saga hennar muni hafa einhver áhrif.

„Ég ætla að halda áfram að starfa sem lögreglukona. Ég er áfram með vinnu. Ég ætla ekki alveg að gefast upp, ég ætla að reyna aftur að sækja um námið þegar ég get það af því þetta er eitthvað sem ég stefni að og hef mikinn áhuga á. Ég vona bara að þetta breytist. Það er fyrsta skrefið að vekja athygli á þessu,“ segir Ólafía Kristín að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert