Aðstandendur Leifs heitins Magnúsar Grétarssonar Thisland á Íslandi og í Noregi hafa sent björgunar- og viðbragðsaðilum þakkir sínar:
„Í síðustu viku gerðist sá sorglegi atburður að drengurinn okkar Leif Magnús Grétarsson Thisland lést af slysförum þegar hann féll í Núpá í Sölvadal. Í þeirri miklu sorg sem slysinu fylgdi fyrir fjölskyldu og vini Leif Magnúsar vorum við ólýsanlega þakklát fyrir óeigingjarnt starf björgunarsveita, lögreglu, Landhelgisgæslunnar og annarra viðbragðsaðila sem komu að björgunaraðgerðum við afar erfiðar aðstæður við Núpá. Þarna fundum við fyrst á eigin skinni hve mikilvægt starf björgunarsveita og annarra viðbragðsaðila er, en það skiptir sköpum fyrir okkur öll þegar veður gerast válynd og aðstæður verða nánast óviðráðanlegar.
Við upplifðum faglega og fumlausa framkomu viðbragðsaðila í öllum samskiptum við okkur aðstandendur Leif Magnúsar og var mikla nærgætni að finna við allar tilkynningar og upplýsingagjöf í kjölfar slyssins. Þetta veitti okkur styrk og vissu fyrir því að verið var að gera allt sem í mannlegu valdi stóð til að koma dregnum okkar til bjargar.
Við erum þakklát ykkur öllum. Við biðjum ykkur Guðs blessunar og gleðilegra jóla. Fyrir hönd fjölskyldna Leifs í Noregi og á Íslandi.
Grétar Már Óskarsson,
Óskar Pétur Friðriksson,
Torfhildur Helgadóttir,
Valgerður Erla Óskarsdóttir,
Brynjólfur Ásgeir Brynjólfsson.“