Sjö stofnleiðir og styttra í strætó

mbl.is/Valgarður Gíslason

 Í nýju leiðaneti fyrir Strætó er lagt til að stofnleiðir verði sjö talsins. Miðað við fyrstu hugmyndir að nýju leiðaneti munu meira en tvöfalt fleiri íbúar höfuðborgarsvæðisins búa innan við 400 m radíus frá stoppistöð leiða sem aka á a.m.k. 10 mínútna fresti, eða 64% íbúa í stað 26% í núverandi leiðaneti.

Þessar hugmyndir samræmast markmiðum og aðgerðum svæðisskipulagsins til 2040 um að auka hlutdeild almenningssamgangna í öllum ferðum. Þörfum notenda er svarað með aukinni tíðni. Heilt yfir verður um 29% aukning á þjónustutíma Strætó á ársgrundvelli, þetta er meðal þess sem kemur fram í skýrslu sem snýr að endurskoðun á leiðaneti Strætó vegna uppbyggingar Borgarlínu og er fyrsti áfangi í þeirri vinnu. 

Í tilkynningu kemur fram að um fyrstu hugmyndir að leiðanetsbreytingum er að ræða. Verkefnið hlaut heitið Nýtt Leiðanet og er fyrsta verkefni faghóps um leiðakerfismál. Vinnan hefur staðið yfir síðan í febrúar 2019 og hafa helstu þættir falist í stefnumótunarvinnu, samráði við almenning og fulltrúa sveitarfélaga, sem og hönnun og greiningu á nýju leiðaneti. EFLA verkfræðistofa veitti ráðgjöf við verkefnastýringu, stefnumótun verkefnisins ásamt því að sinna gerð þessarar skýrslu. Hér er samantekt á helstu atriðum áfangaskýrslunnar.

Fyrstu hugmyndir að nýju leiðanet Strætó ná til aksturs strætisvagna innan höfuðborgarsvæðisins þar sem gert er ráð fyrir ákveðinni lágmarkstíðni á háannatíma og samfelldum þjónustutíma frá morgni til kvölds. Gert er ráð fyrir að vinna við mótun á nýju leiðaneti skiptist í að minnsta kosti tvo áfanga.

Fyrsti áfangi, sem nú er lokið, nær til mótunar á fyrstu hugmyndum á Nýju leiðaneti. Annar áfangi snýr að frekari útfærslu og greiningu á fyrstu hugmyndum um leiðanetsbreytingar byggt á ábendingum sem bárust í samráði við almenning og aðra hagsmunaaðila. Þegar því er lokið verður haft samráð við almenning og aðra hagsmunaaðila á ný.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert