Bjartsýnn á alþjóðlegt farþegaflug til Akureyrar

Akureyrarflugvöllur.
Akureyrarflugvöllur. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Bæta þarf aðbúnað farþega á Akureyrarflugvelli. Áætlað er að fullbúin flugstöð sem mætir þörfinni muni kosta um 600 milljónir. Kostnaður við að fullgera flughlaðið er um 1,6 milljarðar. Þetta kom fram á fundi um flugmál sem Markaðsstofa Norðurlands (MN) hélt á Hótel Kea á Akureyri í dag. Þingmönnum norðaustur- og norðvesturkjördæma var sérstaklega boðið til fundarins.

Jón Þorvaldur Heiðarsson, hagfræðingur og lektor við Háskólann á Akureyri, kynnti greinargerð um ávinning af áætlunarflugi milli landa um Akureyrarflugvöll, bæði þjóðhagslega og fyrir ferðaþjónustuna. Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson, framkvæmdastjóri hjá Circle Air, kynnti úttekt á rekstri og mannvirkjum Akureyrarflugvallar. Einnig voru umræður um stöðu flugvallarins með tilliti til samgönguáætlunar og fjárlaga.

Fundur um flugmál var haldinn á Akureyri í dag.
Fundur um flugmál var haldinn á Akureyri í dag. Ljósmynd/Markaðsstofa Norðurlands

Hjalti Páll Þórarinsson, verkefnastjóri flugklasans Air 66N, flutti erindi um markaðssetningu sem flugklasinn og Markaðsstofa Norðurlands hafa sinnt undanfarin ár. Hann fjallaði m.a. um samstarfið við hollensku ferðaskrifstofuna Voight Travel. Hún hóf vikulegt flug til Akureyrar síðasta vor og ætlar að fljúga nokkur flug í febrúar og mars 2020. Síðan hefst tíðara flug aftur næsta sumar. Þannig ætla þeir að byggja Akureyri upp sem áfangastað fyrir hollenska ferðamenn í samvinnu við MN.  

Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson
Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson Ljósmynd/Markaðsstofa Norðurlands

„Við erum bjartsýn á að það séu markaðslegar forsendur fyrir áætlunarflugi frá útlöndum til Akureyrar,“ sagði Hjalti. „Fundurinn í dag snerist mest um að okkur vantar aðstöðu til að sinna farþegunum. Okkur bráðvantar viðbyggingu við flugstöðina.“

Viljayfirlýsing tveggja ráðherra um Akureyrarflugvöll

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar og nýsköpunarráðherra hafa undirritað viljayfirlýsingu um frekari uppbyggingu á Akureyrarflugvelli til að hann geti þjónað sem fluggátt inn í landið og eflt svæðið og ferðaþjónustu á Íslandi.

Jón Þorvaldur Heiðarsson
Jón Þorvaldur Heiðarsson Ljósmynd/Markaðsstofa Norðurlands

Hjalti sagði að fundarmönnum hefði verið kunnugt um yfirlýsingu ráðherranna. Hann sagði gott skref að skipa starfshóp til að fjalla um málið og eins að í fjárlög hafi komist heimild til að leigja, byggja eða kaupa húsnæði til að stækka flugstöðina á Akureyri. „Aðalatriðið fyrir okkur er að á samgönguáætlun verði settir fjármunir til þess að fara í þessar framkvæmdir á flugstöðinni. Það er aðalmálið,“ sagði Hjalti.

Hann sagði að einnig þurfi að stækka flughlaðið. Markaðslega séð liggi þó meira á að fá stækkun á flugstöðinni svo flugfarþegar þurfi ekki að standa úti, eins og raunin er ef afgreiða þarf meira en eina farþegaflugvél á sama tíma. Stækkun sé nauðsynleg til að tryggja eðlilegt flæði farþega um flugstöðina.

Aðgerðahópur skipaður

Aðgerðahópur verður skipaður til að vinna að verkefnum í samræmi við viljayfirlýsinguna. Hópnum verður falið að gera tillögu um endurbætur á flugstöðinni til framtíðar, vinna greiningu á markaðssetningu á Norðurlandi sem áfangastað og loks að gera kostnaðaráætlun um mögulega stækkun eða endurbætur mannvirkja og þjónustu. Í hópnum verða fulltrúar ráðuneytanna tveggja, Akureyrarbæjar, Eyþings, ferðaþjónustu á Norðurlandi og Isavia. Hann á að ljúka störfum fyrir lok mars 2020.

Hjalti Páll Þórarinsson
Hjalti Páll Þórarinsson Ljósmynd/Markaðsstofa Norðurlands
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert