Ekki lengur gert ráð fyrir þynningarsvæði

Álverið í Straumsvík.
Álverið í Straumsvík. mbl.is/Árni Sæberg

Bæjarstjóra Hafnarfjarðarbæjar hefur verið falið að funda með Rio Tinto á Íslandi vegna skilgreiningar á öryggissvæði í kringum álverið í Straumsvík sem mun koma í staðinn fyrir þynningarsvæði.

Tilefni fundarins er gerð nýs starfsleyfis fyrir ISAL sem rennur út 1. október á næsta ári.Þynningarsvæði er það svæði umhverfis álver þar sem þynning mengunar á sér stað og afmarkast fyrst og fremst af þynningu flúors. 

Fram kemur í bréfi frá Rio Tinto á Ísland sem var lagt fram á fundi bæjarráðs Hafnarfjarðarbæjar að umhverfis- og auðlindaráðuneytið hafi nýverið farið þess á leit við Umhverfisstofnun að ekki verði gert ráð fyrir þynningarsvæði í starfsleyfum álvera héðan í frá. Unnið er út frá því að svo verði í nýju starfsleyfi ISAL.

„Þrátt fyrir að ekki verði þynningarsvæði í kringum athafnasvæði ISAL er mikilvægt að í kringum svæðið sé skilgreint viðeigandi öryggissvæði þar sem skýrð verða mörk leyfilegrar starfsemi og íbúabyggðar. Var slíkt öryggissvæði rætt á fundi ISAL og Hafnarfjarðarbæjar 13. febrúar 2019,“ segir í bréfinu. 

ISAL óskar eftir viðræðum við bæinn um skilgreiningu á slíku svæði með gagnkvæma hagsmuni fyrirtækisins og bæjarins að leiðarljósi. Einnig vill fyrirtækið gera bæjaryfirvöldum grein fyrir framvindu vinnu við endurnýjun á starfsleyfi fyrirtækisins.

Álverið í Straumsvík.
Álverið í Straumsvík. mbl.is/Ómar Óskarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert