Orkumálastjóri segir „margfaldar gaddavírsgirðingar“ reistar um virkjunarkosti

„Öll starfsemi [í ráðuneytinu] virðist mér ganga út á að …
„Öll starfsemi [í ráðuneytinu] virðist mér ganga út á að reisa margfaldar gaddavírsgirðingar í kringum framtíðarkosti okkar til virkjunar jarðhita og vatnsfalla og koma jafnvel í veg fyrir áframhaldandi rannsóknir á auðlindunum,“ ritar orkumálastjóri. mbl.is/Eggert

Það skiptir litlu máli hvað við Íslendingar losum mikið af kolefni, þar sem vandamál okkar vegna loftslagsbreytinga verða ekki minni ef árangur næstu ekki í að draga úr losun á heimsvísu. Íslendingar geta gert meira í að minnka losun og auka bindingu kolefnis utan landamæra Íslands en innan þeirra. Þetta segir Dr. Guðni A. Jóhannesson orkumálastjóri í jólaerindi sínu, sem birtist á vef Orkustofnunar í dag.

Í erindinu fer Guðni um víðan völl og skýtur meðal annars föstum skotum að umhverfis- og auðlindaráðuneytinu og segir þá „vegferð“ sem ráðuneytið sé á varðandi friðlýsingar geta komið í veg fyrir Íslendingar geti þróað áfram þekkingu sína og reynslu varðandi beislun vistvænna orkugjafa. Verkefnaskortur blasir við helstu rannsóknastofnunum og fyrirtækjum á því sviði, segir Guðni.

Dr. Guðni A. Jóhannsson, orkumálastjóri.
Dr. Guðni A. Jóhannsson, orkumálastjóri. Ljósmynd af vef Orkustofnunar

„Öll starfsemi [í ráðuneytinu] virðist mér ganga út á að reisa margfaldar gaddavírsgirðingar í kringum framtíðarkosti okkar til virkjunar jarðhita og vatnsfalla og koma jafnvel í veg fyrir áframhaldandi rannsóknir á auðlindunum. Allt er þetta gert undir sakleysislegum og auðseljanlegum formerkjum, eins og stofnun hálendisþjóðgarðs og og friðlýsingar náttúrusvæða, en hins vegar vandlega sneitt hjá því að meta áhrif þessa á orkuöryggi, atvinnulíf, hagvaxtarmöguleika okkar til lengri tíma, framlag okkar til loftslagsvænnar raforkuvinnslu og svona mætti lengi telja,“ segir ritar Guðni.

Afleiðingar af þessu, segir Guðni, verða þær að þekking og reynsla sem byggst hafi upp um áratugaskeið brotni niður í „sundurlausan eyjarekstur“ og frumkvæði Íslands og orðspor á alþjóðavettvangi fjari út.

Ættum að geta valið okkur verkefni

Í erindinu rekur Guðni ýmis þau verkefni sem Íslendingar gætu átt aðkomu að varðandi þróunarverkefni í orkuskiptum eða annað og ræðir um vel heppnaðar tilraunir til bindingar brennisteinsvetnis og koltvísýrings með niðurdælingu sem gerðar hafa verið við Hellisheiðarvirkjun.

„Kostnaðurinn við förgun kolefnis með þessum hætti hefur verið metinn á um 30 USD á tonnið, eða þrisvar sinnum lægri heldur en samþjöppun og niðurdæling koltvísýrings í vökvaformi. Um virkni þessarar tækni í öðrum bergtegundum en basalti er enn óvíst, en hins vegar er fjöldi kolaorkuvera í heiminum enn mikill og því ættu Íslendingar að geta valið sér verkefni þar sem lausnir þeirra henta best,“ ritar Guðni.

Styrking flutningskerfis gangi alltof hægt

Guðni gerir óveðrið í síðustu viku og skemmdir á raforkukerfinu að umtalsefni í erindinu. Hann segir að nú viti Íslendingar hvað rauð viðvörun þýðir.

„Þegar upp er staðið sitjum við uppi með ótal dæmi um heimili sem hafa verið án símasambands, einangruð og rafmagnslaus, kýr sem standa ómjólkaðar, heilu bæjarfélögin án rafmagns, línur sem hafa slitnað, staura sem hafa brotnað, spenni- og tengivirki sem hefur slegið út vegna ísingar og seltu og svona mætti lengi telja,“ ritar Guðni og segir eðlilegt að menn spyrji sig hvort hægt sé að verjast svona áföllum.

„Eftir slíka álagsprófun getum við ályktað um það hvernig öðruvísi og betur hefði mátt standa að málum og hvað hefði þurft til til þess að koma í veg fyrir rafmagnsleysi á mismunandi stöðum. Fyrsta svarið er að almenn styrking flutningskerfisins gengur alltof hægt. Áfangar sem hafa verið fjármagnaðir og á áætlun í langan tíma hafa dregist úr hömlu og lent í kvörn langvinnra kærumála og flækjustigið virðist vaxa með hverju ári.  

Þegar brúðhjón í útlendum bíómyndum ganga upp að altarinu þá biður klerkur viðstadda sem sjá meinbugi á hjónabandinu að gefa sig fram eða hafa sig ekki í frammi héðan eftir. Ef við værum með sama réttarfar og við leyfisveitingar fyrir nýjum raforkumannvirkjum myndi afbrýðissamur þriðji aðili kæra hjónavígsluna til kærunefndar hjónabandsmála á grundvelli þess að ekki hafi farið fram nógu vönduð valkostagreining áður en brúðurin valdi sér mannsefni. Átján mánuðum síðan kæmi síðan úrskurður um að útgefið hjónavígsluvottorð væri fellt úr gildi og hjónunum gert að flytja sundur og byrja tilhugalífið upp á nýtt. Þá væri reyndar eitt barn komið í heiminn og annað á leiðinni,“ segir Guðni um tíðni kærumála í tengslum við uppbyggingu kerfisins.

Þá segir hann í öðru lagi að hægt væri að verja tengivirki betur fyrir ísingu og seltu en nú er með einhvers konar yfirbyggingum og í þriðja lagi segir Guðni líklegt að eftir því sem stærri hluti dreifikerfisins á lægri spennu sé lagður í jörð, þeim mun minni líkur verði á truflunum í dreifikerfinu.

Jólaerindi orkumálastjóra má lesa í heild sinni á vef Orkustofnunar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert