„Lítið mál fyrir allt samfélagið en risastórt mál fyrir þessar fjölskyldur,“ sagði Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra er hún ræddi um auknar niðurgreiðslur til tannlækninga á kynningarfundi í heilbrigðisráðuneytinu fyrr í dag. 1.janúar verður öllum börnum sem fæðast með skarð í efri tannboga eða með klofinn góm tryggður réttur til endurgreiðslu vegna tannlækninga og tannréttinga sem nemur 95% af gjaldskrá tannlæknis.
Um er að ræða eitt af mörgum skrefum í ráðstöfun 1,1 milljarðs, á næstu tveimur árum, til að lækka greiðsluþátttöku sjúklinga, sem Svandís kynnti dag.
Á fundinum voru, auk fjölmiðlafólks og fólks frá stjórnvöldum, aðiljar úr forystu Samtaka sykursjúkra og Samtaka lungnasjúklinga. Ástæða þess að þeim var sérstaklega boðið til fundarins er að samkvæmt áformunum sem Svandís kynnti verður léttum súrefnissíum fjölgað umtalsvert á næsta ári, og tekinn verður í notkun búnaður fyrir sykursjúka sem er nýr hér á landi.
Í samtali við blaðamann mbl.is að fundi loknum sagði Svandís aðspurð, að um væri að ræða breytingar sem hefðu gríðarmikil áhrif á sykursjúka og lungnasjúklinga, og að um væri að ræða aðgerðir sem tiltölulega lítið mál hefði verið að ráðast í. Þá sagði hún að allt væri þetta þáttur í að auka hlut heilsugæslustöðva í heilbrigðisþjónustu, en eins og greint var frá fyrr í dag verða almenn komugjöld á heilsugæslu lækkuð úr 1.200 kr. í 700 kr. um áramótin, og munu svo falla niður með öllu um þarnæstu áramót.
Spurð hvort þessum auknu útgjöldum hefði að einhverju leyti verið andmælt af samstarfsfólki hennar í ríkisstjórn kvað Svandís nei við. Aðgerðir og aukin útgjöld í átt að því að lækka greiðsluþátttöku sjúklinga hefðu legið fyrir strax og stjórnarsáttmálinn var undirritaður, og því hefði hún engum hindrunum mætt meðal ríkisstjórnarmeðlima hvað það varðaði.
Í samtali við mbl.is sagði Fríða Bragadóttir, framkvæmdastjóri samtaka sykursjúkra, að umrædd tæki, sem nú verða tekin í gagnið hér landi, breyti miklu fyrir sykursjúka, þá sérstaklega börn og ungmenni. Um er að ræða nema sem fylgjast með blóðsykri í gegnum húð notenda að staðaldri. Koma þeir þá í stað hefðbundinna blóðsykursmælinga sem margir kannast við, með stungunálum og strimlum. „Sumir sykursjúkra hafa misst tilfinninguna í fingurgómunum,“ sagði Fríða og lýsti því hvað nýju mælarnir væru miklu þægilegri en hin gamla aðferð.