Sveinn Andri kvartar undan héraðsdómara

Sveinn Andri segir það hafa verið kornið sem fyllti mælinn …
Sveinn Andri segir það hafa verið kornið sem fyllti mælinn þegar dómarinn boðaði svo til fundar þar sem ræða átti hvort skiptastjórinn hefði brugðist rétt við. mbl.is/Árni Sæberg

„Þetta er í fyrsta sinn á mínum 30 ára ferli sem ég kvarta undan dómara,“ segir Sveinn Andri Sveinsson, hæstaréttardómari, í samtali við mbl.is. 

Hann hefur lagt fram kvörtun til nefndar um dómarastörf vegna framferðis Helga Sigurðssonar hérðasdómara vegna aðfinnsla dómarans við þóknun sem Sveinn Andri ráðstafaði til sín sem skiptastjóri þrotabús. Sveinn Andri telur persónulega andúð dómarans hafa spilað inn í ákvörðun hans. Fréttablaðið greindi fyrst frá málinu.

Helgi gerði Sveini Andra að endurgreiða þóknunina til umrædds þrotabús, EK1923, og telur Sveinn Andri ákvörðun dómarans þess efnis bæði ámælisverða og ólögmæta. Á skiptafundi í kjölfar endurgreiðslunnar bókaði Sveinn Andri ákvörðun um að taka sér greiðslu af fé búsins upp í áfallna þóknun og bókuðu fulltrúar meirihluta kröfuhafa stuðning við þóknunina. Taldi Sveinn Andri sig hafa orðið við fyrirmælum dómarans og að málið væri úr sögunni.

Eitthvað annað sem spilar inn í en ólæsi á lögin

Sveinn Andri segir það hafa verið kornið sem fyllti mælinn þegar dómarinn boðaði svo til fundar þar sem ræða átti hvort skiptastjórinn hefði brugðist rétt við.

Það var lögð fram staðfesting frá löggiltum endurskoðanda um að skiptaþóknun hefði verið endurgreidd. Þegar menn fara að draga svoleiðis í efa þá er eiginlega fokið í flest skjól,“ segir Sveinn Andri í samtali við mbl.is vegna málsins.

Hann segist ekki getað dregið aðrar ályktanir en þær að afstaða dómarans litist af persónulegri andúð. „Ég bara get ekki dregið aðrar ályktanir vegna þess að þessar ákvarðanir eru svo vitlausar. Þær eru bara ekki í samræmi við lög og standast ekki. Það er eitthvað annað sem spilar þarna inn í heldur en ólæsi á lögin.“

Sveinn Andri segir að nú reyni á hvort ákvörðun dómarans heyri undir starfssvið nefndarinnar. Ef um væri að ræða áfrýjanlega eða kæranlega úrlausn væri svo ekki, en að hann hafi ekki getað kært ákvörðun dómarans. 

„Þess vegna er það mín skoðun að þetta heyri undir nefndina og menn hafa þetta úrræði ef þeir telja á sér brotið. Ég er bara að nýta mér það úrræði því ég tel ákvörðun dómarans ólögmæta og rangláta.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert