Ferðalög möguleg í dag og mánudag

mbl.is/Eggert

Ef fólk ætlar sér að ferðast á milli landshluta fyrir jól þá ætti það að íhuga alvarlega að fara af stað í dag eða bíða með ferðalög fram á mánudag, Þorláksmessu. Víða eru komnar gular viðvaranir fyrir helgina og ekki útilokað að þær verði einnig fyrir fleiri landshluta, segir Birta Líf Kristinsdóttir, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands.

Birta segir að veðrið í dag sé skárra en í gær og skárra en það sem er í vændum á morgun. Samt er veðrið ekki gott í dag þar sem það er allhvöss norðaustanátt og einhver snjókoma á Norður- og Austurlandi. Einna hvassast er á Norðvesturlandi, Vestfjörðum og Suðausturlandi í dag og einhver slydda með ströndinni fyrir norðan og austan. 

Á morgun bætir aftur í vind og úrkomu þannig að hríðarviðvarnir eru í gildi á Norðurlandi eystra, Austurlandi að Glettingi og Miðhálendinu á því um hádegi á morgun fram á kvöld á sunnudag. „Það er ekki útilokað að við setjum viðvaranir á Vestfjörðum og Norðurlandi vestra fyrir morgundaginn. Þessar viðvaranir eru allar í gildi fram eftir degi á sunnudag þannig að það er ekki fyrr en á mánudag sem þetta fer að ganga niður,“ segir hún. Eins verði að hafa í huga að allt kerfið sé viðkvæmt, bæði raflínur og færð á vegum vegna snjóa. Segja megi að þröskuldurinn sé aðeins lægri núna en oft áður. Í ljósi óveðursins um daginn og að þetta er helgin fyrir jól. 

„Ég tel að fólk ætti að skoða það, ef það á tök á því, að fara annað hvort í dag eða á mánudaginn ef það á að fara á milli landshluta. Þetta er alvöru vetrarveður,“ segir Birta. 

Ekki hætta á snjóflóðum í byggð

Spáð er hvassri NA-átt með snjókomu til fjalla á norðan- og austanverðu landinu fram á sunnudagskvöld. Einkum verður mikil snjókoma á svæðinu frá Austurlandi að Tröllaskaga. Á Austfjörðum hefur rignt á láglendi en snjóað til fjalla. Þar mun kólna aðeins á laugardag en hlýna aftur á sunnudag.  Á Norðurlandi hefur snjóað niður á láglendi. Gera má ráð fyrir skafrenningi til fjalla og einhverri snjókomu á Vestfjörðum.

Talsverður snjór er fyrir í fjöllum eftir óveðrið í síðustu viku og NA-éljagang og skafrenning síðustu daga.

Við þessar aðstæður getur skapast hætta á snjóflóðum t.d. þar sem vegir liggja um snjóflóðahlíðar. Í gær féll snjóflóð yfir veginn um Ljósavatnsskarð og lokaði honum.

Ekki er talin vera hætta á snjóflóðum í byggð eins og er, en snjóflóðavakt Veðurstofunnar fylgist með stöðunni yfir helgina.

Vegagerðin er með viðvörunarkerfi þar sem SMS skeyti með upplýsingum um snjóflóðahættu eru send til vegfarenda. Um er að ræða veg 61 um Súðavíkurhlíð, veg 82 um Ólafsfjarðarmúla og veg 64 Flateyrarveg.

Viðvaranirnar eru meðal annars byggðar á snjóflóðaspá sem Veðurstofan gerir fyrir Vegagerðina um þessa vegakafla.

Þeir sem vilja fá upplýsingar um snjóflóðahættu á þessum vegum geta skráð sig á SMS lista með því að senda post á umferd@vegagerdin.is eða í síma 1777.

Óvíst hvort Ljósavatnsskarðið opni í dag

Óvíst er hvort hægt verði að opna veginn um Ljósavatnsskarð í dag en snjóflóð féll á veginn í gærkvöldi. Búið er að opna veginn um Möðrudalsöræfi en þar er snjór á veginum og skafrenningur.

Hólasandur er lokaður vegna veðurs en búið er að opna veginn um Vopnafjarðarheiði. Búið er að opna veginn um Öxnadalsheiði en þar er snjóþekja og skafrenningur.

Á Vestfjörðum er snjór eða hálka á flestum leiðum. Á Klettshálsi er þæfingur og skafrenningur en víða um land er færðin frekar erfið.

Strætó hefur fellt niður ferð til Hafnar kl. 16:15 í dag vegna veðurs. Á Suðurlandi er flughálka á Villingaholtsvegi, Gaulverjabæjarvegi, Reykjavegi, Landvegi, Árbæjarvegi og í Grafningi.

Gular viðvarnir víða

Á Norðurlandi eystra tekur gul viðvörun gildi klukkan 12 á morgun og gildir til klukkan 15 á sunnudag.

„Allhvöss eða hvöss norðaustanátt (13-20 m/s) með éljum eða snjókomu og mögulega skafrenningi. Búast má við lélegu skyggni og erfiðum akstursskilyrðum á vegum. Líkur eru á afmörkuðum samgöngutruflunum, sérílagi á fjallvegum.“

Á Austurlandi að Glettingi er gul viðvörun í gildi frá klukkan 12 á morgun til klukkan 18 á sunnudag.

„Norðan og norðaustan hvassviðri eða stormur með éljum eða snjókomu og mögulega skafrenningi. Líkur á talsverðri ofankomu um tíma. Búast má við lélegu skyggni og erfiðum akstursskilyrðum á vegum. Líkur eru á afmörkuðum samgöngutruflunum, sérílagi á fjallvegum.“
Gul viðvörun tekur gildi á Austfjörðum klukkan 11 í fyrramálið og gildir til klukkan 13 á sunnudag. 

„Norðan og norðaustan hvassviðri eða stormur með éljum eða snjókomu og mögulega skafrenningi. Líkur á talsverðri ofankomu um tíma. Búast má við lélegu skyggni og erfiðum akstursskilyrðum á vegum. Líkur eru á afmörkuðum samgöngutruflunum, sérílagi á fjallvegum.“

Á Miðhálendinu tekur viðvörunin gildi klukkan 1 í nótt og gildir til klukkan 18 á sunnudag.

„Norðaustan stormur (18-25 m/s) með snjókomu og/eða skafrenningi, einkum norðan jökla. Búast má við lélegu skyggni og erfiðum skilyrðum til ferðalaga.“

Á Suðausturlandi tekur gul viðvörun vegna storms gildi klukkan 1 í nótt og gildir til hádegis á sunnudag. 

„Norðaustan hvassviðri eða stormur, 15-25 m/s, hvassast við Öræfajökul og vindhviður þar geta náð yfir 35 m/s. Bætir í norðlægan vind A-til á svæðinu á laugardagskvöldið og aðfaranótt sunnudags. Vindurinn getur verið varasamur fyrir ökutæki, sérílagi þau sem eru viðkvæm fyrir vindi.“

Vilja breytingu á reglugerð

Samtök ferðaþjónustunnar á samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra að gera breytingar á reglugerð þannig að erlendir ferðamenn geti ekið um á bílaleigubílum búnum öruggasta búnaði á því tímabili þar sem aðstæður geta verið erfiðar.

„Öryggismál og forvarnir eru ein af undirstöðum faglegrar ferðaþjónustu. Umræðan um öryggismál magnast þegar alvarleg atvik koma upp og fjöldi þeirra eykst. Mikilvægt er að hafa núllsýn í huga og efla aðgerðir til að draga úr umferðarslysum. SAF hafa á undanförnum árum átt frumkvæði að samræðum við stjórnvöld, viðbragðsaðila og tryggingafélög um forvarnaraðgerðir og eru stýrisspjöld bílaleigubíla, merkingar á ensku o.fl. afrakstur af því starfi. Aukið svigrúm varðandi notkun negldra hjólbarða í umferðinni eiga að vera hluti af þeim forvarnaraðgerðum og hjálpa til við þá núllsýn sem stefnt er að. Öryggi er grunnur að gæðum í ferðaþjónustu og aldrei má gefa afslátt þegar kemur að því að tryggja öryggi í umferðinni.
Samkvæmt reglugerð um gerð og búnað ökutækja er heimilt að keyra um á negldum hjólbörðum á tímabilinu 1. nóvember til og með 14. apríl. SAF kalla eftir því að heimilt verði að nota neglda hjólbarða undir bílaleigubíla á tímabilinu frá 1. september til og með 31. maí.
SAF hafa löngum verið þess sinnis að stór þáttur í að gæta að öryggi vegfarenda hér á landi er að heimila bílaleigum að bjóða til leigu ökutæki á nagladekkjum þegar þess er þörf. Það kallar á aukið svigrúm miðað við það sem reglur gera ráð fyrir í dag. Þörf fyrir aukið svigrúm tilhanda bílaleigum skýrist m.a. af miklum fjölda ökutækja og tímafreku starfi dekkjaskipta en ekki síður af því að mikil hálka og erfið færð getur skapast og hefur skapast utan núgildandi tímabils nagladekkja.
Yfir vetrartímann telur bílaleiguflotinn hér á landi um 20 þúsund bifreiðar. Gróflega má ætla að dekkjaskipti þurfi að eiga sér stað á allt að fimm þúsund bílaleigubílum hvert haust og vor. Reynslan sýnir að það tekur bílaleigur um sex vikur að ljúka dekkjaskiptum á öllum þeim flota. Til að ljúka við dekkjaskipti fyrir 15. apríl ár hvert má ætla að bílaleigur þurfi að hefja dekkjaskipti upp úr miðjum marsmánuði. Í ljósi umferðaröryggissjónarmiða er það vitaskuld ekki raunhæft, enda geta veður verið válynd á Íslandi eins og þekkt er,“ segir í tilkynningu frá Samtökum ferðaþjónustunnar.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert