Ingveldur skipuð hæstaréttardómari

Ingveldur Einarsdóttir verður dómari við Hæstarétt Íslands frá áramótum.
Ingveldur Einarsdóttir verður dómari við Hæstarétt Íslands frá áramótum. mbl.is/Samsett

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra hefur gert tillögu til forseta Íslands um skipun Ingveldar Einarsdóttur landsréttardómara sem dómara við Hæstarétt Íslands frá 1. janúar 2020.

Við skipan Ingveldar í Hæstarétt losnar embætti eins dómara í Landsrétti og verður það embætti auglýst laust til umsóknar fljótlega, en frá þessu er greint á vef Stjórnarráðsins.

Ingveldur er fædd árið 1959 og var hún settur hæstaréttardómari frá 2013 til 2017. Hún var skipuð héraðsdómari árið 1999 og starfaði svo sem dómstjóri við Héraðsdóm Suðurlands 2001-2002 og 2003-2004. Síðan var Ingveldur héraðsdómari við Héraðsdóm Reykjavíkur 2004-2012 og nú síðast landsréttardómari frá því að Landsréttur tók til starfa.

Þá hefur Ingveldur verið formaður Barnaverndarráðs Íslands, formaður kærunefndar barnaverndarmála, formaður Dómarafélags Íslands og formaður Dómstólaráðs, svo eitthvað sé nefnt.

Þrjú voru metin hæfust

Átta sóttu um embættið, en það var auglýst laust til umsóknar í september eftir að þeir Markús Sigurbjörnsson og Viðar Már Matthíasson tilkynntu að þeir hygðust láta af störfum.

Þrír umsækjendur voru metnir hæfastir til að gegna embættinu, en auk Ingveldar voru það þeir Davíð Þór Björgvinsson og Sigurður Tómas Magnússon. Hæfnisnefnd treysti sér ekki til þess að gera upp á milli hæfni þeirra til þess að gegna embætti hæstaréttardómara.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert