Jóhann Ólafsson
Skiltakarlarnir svokölluðu stóðu fyrir mótmælum í anddyri og á bílastæði atvinnu- og nýsköpunarráðuneytisins í hádeginu í dag. Þar fór fram „spillingarhreinsun“ á ráðuneyti Samherjans Kristjáns Þór Júlíussonar, eins og sagði í Facebook-færslu Skiltakarlanna.
„Ráðherrastæðið var alveg yfirþyrmandi gegnsýrt af spillingu og fékk sinn skammt af spreyi og aðvörunarborða,“ kom enn fremur fram í færslunni.
„Við reyndum að ná tali af ráðherranum en fengum þau svör að ráðuneytið gæfi ekki út hvort hann væri á staðnum,“ segir „Skiltakarlinn“ Leifur A. Benediktsson í samtali við mbl.is.
Hann segir að mótmælin hafi verið táknræn og ráðuneyti Kristjáns Þórs Júlíussonar, atvinnu- og sjávarútvegsráðherra, hafi verið lokað með borða sem á stóð „lokað vegna spillingar.“
„Við buðum gestum og starfsmönnum ráðuneytisins spillingarúðun eftir að hafa heimsótt ráðuneytið,“ segir Leifur.
Hann segir að mótmælum dagsins hafi lokið þegar lögreglan kom á staðinn og telur að öryggisvörður hafi óskað eftir aðstoð lögreglu. Leifur segir að frekari aðgerðir séu fyrirhugaðar í ráðuneytinu fyrir jól.