Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra hefur virkjað rannsóknarnefnd almannavarna til þess að rýna og meta framkvæmd almannavarnaaðgerða í óveðrinu í síðustu viku. Frá þessu greindi Áslaug í pistli í Morgunblaðinu í dag.
Nefndin er sjálfstæð og starfar í umboði Alþingis. Þessi nefnd hefur aldrei verið virkjuð áður, þótt hún hafi verið kosin af Alþingi með reglubundnum hætti frá árinu 2008.
„Henni hefur fram til þessa ekki verið tryggt nauðsynlegt fjármagn á fjárlögum en ég hef gert ráðstafanir til tryggja nefndinni fjármuni til rannsóknar og skýrslugerðar í kjölfar nýliðinna atburða. Nefndin mun rannsaka þær áætlanir sem stuðst var við þegar hættuástandið skapaðist og hvernig viðbragðsaðilar brugðust við. Einnig á nefndin að gera tillögur um úrbætur og vekja athygli á atriðum sem henni þykja máli skipta og horfa til bóta,“ segir Áslaug Arna í pistli sínum.
Þar segir ráðherra einnig að veðrið sem gekk yfir landið hafi sýnt að ástand öryggismála og uppbygging innviða sé ófullnægjandi. „Það er því mikilvægt að greina hvað fór úrskeiðis og hvað sé unnt að bæta til að bregðast enn betur við ef og þegar slíkar aðstæður skapast á nýjan leik,“ ritar Áslaug Arna.