Rómantík ekki útilokuð

Teitur Arason á vaktinni í gærdag.
Teitur Arason á vaktinni í gærdag. Morgunblaðið/Sigurður Bogi

Búast má við stöðugri NA-átt á landinu næstu sólarhringa með snjókomu norðanlands og austan. Morgunblaðið leit inn á Veðurstofu Íslands í gær þar sem Teitur Arason veðurfræðingur greindi stöðuna.

„Áhugi almennings á veðri er alltaf mikill fyrir jólin, rétt eins og fyrir ferðahelgar á sumrin. Hin rómantíska hugmynd margra um jólaveðrið er hægviðri og lítilsháttar snjókoma. Ég útiloka ekki að þannig viðri einhvers staðar á landinu á aðfangadagskvöld,“ segir Teitur.

Þessa stundina er djúp og víðáttumikil lægð sunnan við landið og hreyfist lítið enda er mótstaða af hæð yfir Grænlandi. „Á Þorláksmessu gefa þessi veðrakerfi eftir svo vindur gengur niður. Því mun viðra ágætlega til ferðalaga, en margir fara landshorna á milli fyrir jólin. Á aðfangadag rofar til fyrir norðan og austan en sunnanlands og vestan gæti ýmist snjóað eða rignt, þótt í litlum mæli verði. Á jóladag og dagana þar á eftir gæti svo hlýnað með sunnanátt og rigningu. Spár fyrir þá daga eru þó enn ótryggar,“ segir Teitur

Annasamt hefur verið á Veðurstofunni að undanförnu og er þar skemmst að minnast óveðursins í síðustu viku. „Spár fyrir óveðrið mikla í síðustu viku urðu ekki áreiðanlegar fyrr en um tveimur sólarhringum áður en það skall á. Þar kemur til að lægðin sem þessu olli bókstaflega myndaðist og dýpkaði yfir landinu,“ segir Teitur. Hann bætir við að á óveðursdögum að undanförnu hafi mannskap á spávöktum verið fjölgað, enda hafi verið kallað eftir upplýsingum og öruggum spám víða að. sbs@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka