Segir staðfestingar á millifærslum vanta

Sveinn Andri Sveinsson, lögfræðingur og skiptastjóri EK1923.
Sveinn Andri Sveinsson, lögfræðingur og skiptastjóri EK1923. mbl.is/Árni Sæberg

Engin staðfesting í formi reikningsyfirlits hefur borist frá Sveini Andra Sveinssyni, skiptastjóra þrotabús EK1923, um endurgreiðslu á 100 milljóna króna þóknun sem honum bar að skila til þrotabúsins í kjölfar aðfinnslu hluta kröfuhafa búsins og ákvörðunar héraðsdóms þar að lútandi. Þetta segir lögmaður sem gætir hagsmuna flestra þeirra kröfuhafa sem gerðu athugasemdir við þóknanirnar.

Í gær var greint frá því að Sveinn Andri hefði lagt fram kvörtun til nefndar um dómarastörf vegna framferðis Helga Sigurðssonar héraðsdómara vegna aðfinnslna hans við skiptaþóknunina.

Í yfirlýsingu sem Heiðar Ásberg Atlason, lögmaður hluta kröfuhafa bús EK1923, hefur sent frá sér segir hann að með kvörtuninni fylgi aðeins staðfesting endurskoðanda, en að kröfuhafar hafi farið fram á að sjá afrit af millifærslum auk yfirlits fjárvörslureiknings þrotabúsins til að sjá hreyfingar. Telur hann Sveini Andra ekki stætt á öðru en að veita slíkar upplýsingar.

Heiðar hefur áður fyrir hönd skjólstæðinga sinna farið fram á að Sveinn Andri eigi að víkja sem skiptastjóri, en um miðjan janúar verður málflutningur um það efni. Segir Heiðar að Sveini Andra beri að afhenda gögn sem staðfesti endurgreiðslurnar samkvæmt ákvörðun dómarans fyrir þann tíma.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert