Alexander Bridde, sem rekur járnsmíðaverkstæðið Prófílstál, smíðaði á dögunum einstakt 180 sentímetra hátt jólatré úr járni fyrir eiginkonu sína, Ingibjörgu, sem þjáist af hvimleiðu ofnæmi fyrir greni.
Alexander segir Ingibjörgu hafa verið fljóta að samþykkja nýja tréð þrátt fyrir að þetta væri í fyrsta skipti í 37 ár sem fjölskyldan væri ekki með lifandi jólatré.
Jólatréð prýðir nú heimili þeirra hjóna, hangandi úr loftinu, barnabörnunum til mikillar gleði. Sonur Alexanders, Guðni Bridde, sem einnig er járnsmiður á verkstæði föður síns, smíðaði stjörnuna sem trónir á toppi járntrésins.
Alexander er enginn nýgræðingur í hönnun og smíði skrautmuna en í samtali við Morgunblaðið segist hann smíða flestar gjafir sem hann gefur sjálfur úr járni.