Landsréttur dæmdi í dag pólskan karlmann, Jerzy Wlodzimierz Lubaszka, í fimm ára fangelsi fyrir stórfellt fíkniefnalagabrot; fyrir hlutdeild sína á innflutningi á 11,5 lítrum af amfetamínbasa með Norrænu í október fyrir tveimur árum.
Héraðsdómur sýknaði Lubaszka í apríl í fyrra en dæmdi samverkamann hans í sex og hálfs árs fangelsi.
Amfetamínbasinn var fluttur frá Póllandi til Íslands í 23 hálfs lítra plastflöskum sem faldar höfðu verið í bensíntanki Citroen C5-bifreiðar, en bíllinn kom til landsins með Norrænu í október 2017. Það voru tollverðir á Seyðisfirði sem fundu fíkniefnin við tollskoðun á Seyðisfirði.
Fram kemur í dómi Landsréttar að framburður Lubaszka, um að honum hafi ekki verið kunnugt um að fíkniefni væru í bílnum, sé ótrúverðugur.
Það verði að teljast ósennilegt að honum hafi á þeirri löngu leið sem engin var geta dulist þau hljóð sem bárust frá eldsneytistanki bifreiðarinnar, sem greinilega heyrðust samkvæmt framburði lögregluþjóns.
Enn fremur kemur fram í dómnum að Lubaszka sé lærður bifvélavirki og bifreiðastjóri að atvinnu.
Við mat á refsingu er tekið tillit til þess að gögn málsins sýni að Lubaszka hafi ekki átt ríkan þátt í undirbúningi Íslandsferðarinnar, útvegunar efna eða samskiptum við aðra sem áttu þátt í undirbúningi eða skipulagi í Póllandi.
Með hliðsjón af þessu þykja fimm ára fangelsi hæfileg refsing en til frádráttar er gæsluvarðhald sem hann sætti.