Sýknaður í héraði en dæmdur í Landsrétti

Lubaszka tók þátt í innflutningi á 11,5 lítrum af amfetamínbasa …
Lubaszka tók þátt í innflutningi á 11,5 lítrum af amfetamínbasa með Norrænu í október fyrir tveimur árum. mbl.is/Þorgeir

Landsréttur dæmdi í dag pólsk­an karl­mann, Jerzy Wlodzimierz Lubaszka, í fimm ára fangelsi fyrir stórfellt fíkniefnalagabrot; fyrir hlutdeild sína á innflutningi á 11,5 lítrum af amfetamínbasa með Norrænu í október fyrir tveimur árum.

Héraðsdómur sýknaði Lubaszka í apríl í fyrra en dæmdi samverkamann hans í sex og hálfs árs fangelsi.

Am­feta­mín­basinn var flutt­ur frá Póllandi til Íslands í 23 hálfs lítra plast­flösk­um sem fald­ar höfðu verið í bens­ín­tanki Citroen C5-bif­reiðar, en bíll­inn kom til lands­ins með Nor­rænu í októ­ber 2017. Það voru toll­verðir á Seyðis­firði sem fundu fíkni­efn­in við tollskoðun á Seyðis­firði.

Fram kemur í dómi Landsréttar að framburður Lubaszka, um að honum hafi ekki verið kunnugt um að fíkniefni væru í bílnum, sé ótrúverðugur.

Það verði að teljast ósennilegt að honum hafi á þeirri löngu leið sem engin var geta dulist þau hljóð sem bárust frá eldsneytistanki bifreiðarinnar, sem greinilega heyrðust samkvæmt framburði lögregluþjóns. 

Enn fremur kemur fram í dómnum að Lubaszka sé lærður bifvélavirki og bifreiðastjóri að atvinnu.

Við mat á refsingu er tekið tillit til þess að gögn málsins sýni að Lubaszka hafi ekki átt ríkan þátt í undirbúningi Íslandsferðarinnar, útvegunar efna eða samskiptum við aðra sem áttu þátt í undirbúningi eða skipulagi í Póllandi.

Með hliðsjón af þessu þykja fimm ára fangelsi hæfileg refsing en til frádráttar er gæsluvarðhald sem hann sætti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert