„Vitum í rauninni ekki neitt“

Hjónin Bergdís Ingibjörg Eggertsdóttir og Grettir Sigurðsson eru í hópi …
Hjónin Bergdís Ingibjörg Eggertsdóttir og Grettir Sigurðsson eru í hópi á annað hundrað Íslendinga sem eiga bókað flug og hótelgistingu með ferðaskrifstofunni Farvel. Ferðamálastofa felldi úr gildi leyfi Farvel í dag þar sem fyrirtækið hefur ekki skilað inn hækkaðri tryggingu og hefur Farvel því hætt störfum. Ljósmynd/Aðsend

Hjónin Grettir Sigurðsson og Bergdís Ingibjörg Eggertsdóttir eru stödd í strandbænum Hua Hin í suðurhluta Taílands þar sem þau ætla að dvelja yfir jól og áramót. Þau lentu á mánudagskvöld og voru rétt búin að jafna sig á tímamismuni og venjast hitanum þegar þau fengu þær upplýsingar frá Ferðamálastofu að ferðaskrifstofunni sem þau bókuðu ferðina með hefði verið lokað. 

Ferðaskrifstofan sem um ræðir er Farvel, sem sérhæfir sig í lúxusferðum til framandi landa, og eru ferðir á annað hundrað manns í óvissu. Leyfi Farvel var af­numið þar sem fyr­ir­tækið upp­fyllti ekki leng­ur skil­yrði laga um pakka­ferðir og sam­tengda ferðatil­hög­un um skil gagna og hafði ekki sinnt ákvörðun Ferðamála­stofu um hækk­un trygg­ing­ar­fjár­hæðar.

„Fyrsta sem kom upp í hugann er að gera gott úr því sem komið er og við björgum okkur einhvern veginn, við höfum svo sem engar áhyggjur af því, en þetta gæti orðið einhver þvælingur,“ segir Grettir í samtali við mbl.is. 

Í tölvu­pósti sem Ferðamála­stofa sendi á þá sem eru er­lend­is á veg­um Far­vel fyrrr í dag kem­ur fram að Far­vel hef­ur ekki greitt flug­fé­lög­um fyr­ir heim­ferð viðskipta­vin­anna.

„Því miður reyn­ist Ferðamála­stofu ekki unnt að koma fólki heim og verða farþeg­arn­ir því sjálf­ir að sjá um að kaupa sér heim­flug,“ seg­ir í póst­in­um, en ferðalöng­um er bent á að fyr­ir þeim kostnaði geti þeir gert kröfu til Ferðamála­stofu í trygg­ing­ar­fé Far­vel ehf. þegar heim er komið.

Ekki svarað í síma fyrr en á Þorláksmessu

Ferðamálastofa hefur tekið frá sæti fyrir farþegana í gegnum ferðaskrifstofuna Vita. Fargjaldið kostar 128.000 krónur á farþega og þurfa þeir að bóka með tölvupósti eða símleiðis og svarað er í síma eftir helgi. 

Grettir hefur ekkert heyrt frá starfsfólki Farvel og segir hann fararstjórann, sem er á vegum Farvel, hafa verið mjög undrandi. „Jafnvel meira undrandi en ég.“ Grettir reyndi að ná sambandi við bæði Farvel og Vita í kvöld en fékk engin svör og býst ekki við að fá fyrr en eftir helgi. „Við vitum í rauninni ekki neitt,“ segir hann.  

Óvissa er um seinni legg ferðalagsins, en Grettir og Bergdís eiga bókað flug til Bangkok 1. janúar. Þá segist Grettir þegja þunnu hljóðu á hótelinu sem þau dvelja á núna, þar sem hann veit ekki fyrir víst hvort Farvel hafi greitt fyrir dvöl þeirra þar. Í fyrrnefndum tölvupósti segir að Farvel hafi ekki greitt fyrir hótelgistingar að fullu. 

Grettir og Bergdís eru að ferðast ásamt vinahjónum og sex Íslendingar til viðbótar eru á hótelinu. Grettir segir að þau séu í sömu sporum og hafi engar upplýsingar fengið umfram tölvupóstinn frá Ferðamálastofu. 

Ferðaskrifstofuleyfi ferðaskrifstofunnar Farvel hefur verið fellt niður. Á Facebook-síðu Farvel …
Ferðaskrifstofuleyfi ferðaskrifstofunnar Farvel hefur verið fellt niður. Á Facebook-síðu Farvel má finna auglýsingar fyrir ferðir um páskana og næsta haust. Skjáskot/Facebook

Átti bókaða ferð til Tenerife þegar WOW air féll

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Grettir lendir í hremmingum á ferðlögum. Fyrr á þessu ári ætlaði hann með stórfjölskyldunni til Tenerife. Ferðina bókaði hann með WOW air sem fór, líkt og alþjóð veit, í þrot í mars. 

Þá er ekki öll sagan sögð því Grettir var einnig óheppinn síðasta sumar þegar hann bókaði ferð til Rússlands í þeirri von að sjá íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu spreyta sig gegn Messi og félögum í fyrsta leik. Hann fékk hins vegar ekki miða á leikinn og því varð ekkert úr ferðinni. 

Grettir horfir samt sem áður björtum augum til framtíðar. „Ég hef engar áhyggjur af framtíðinni, ég hef meiri áhyggjur af fortíðinni ef að hún kemur aftur,“ segir hann og hlær, en hann segist ekki trúa því að á honum hvíli einhvers konar ferðabölvun. 

Áætluð heimför Grettis og Bergdísar er 4. janúar en það á eftir að koma í ljós hvernig og hvenær hjónin komast heim. „Þetta er pínu klapp á kinnina en við njótum lífsins og gerum gott úr þessu eins og öllu öðru. En vissulega hefur þetta áhrif og ef þetta lengir okkar veru hérna þá hefur þetta áhrif á vinnu og ýmislegt. Sem og fjárhagshliðina, þetta kostar slatta. En við erum vel tryggð,“ segir Grettir.   

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert