Guðni Einarsson
Opnuð var einbreið leið í gegnum snjóflóð sem féll á hringveginn í Ljósavatnsskarði eftir hádegi í gær. Fólk úr björgunarsveitum stjórnaði umferð bíla sem biðu eftir opnun beggja vegna flóðsins.
Síðan var leiðin breikkuð svo umferð kæmist samtímis í báðar áttir. Gera mátti ráð fyrir því að þjóðveginum yrði lokað aftur í gærkvöld í miðað við veðurspána í gær, að sögn lögreglunnar á Norðurlandi eystra á Facebook-síðu sinni.
Stórt snjóflóð, um 500 metra breitt, féll yfir hringveginn um Ljósavatnsskarð í fyrrakvöld og lokaði leiðinni. Vegfarandi ók inn í flóðið að austanverðu rétt fyrir klukkan 21 um kvöldið. Slæmt skyggni var þá á þessum slóðum. Hvorki ökumann né farþega í bílnum sakaði.
Snjóflóðið var um eins metra þykkt þar sem það lá yfir veginum, samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni. Snjóflóðið kom úr hlíðinni vestan við Kross og féll alveg niður í Ljósavatn. Þarna er þekkt snjóflóðasvæði og hafa snjóflóð áður farið yfir veginn.
Í umfjöllun um snjóflóðahættuna í Morgunblaðinu í dag segir, að í öllum dalnum sem nefnist Ljósavatnsskarð eru skráð rúmlega 70 snjóflóð en þau hafa ekki nærri öll ógnað vegi, að sögn Veðurstofunnar.