Jól í greipum Ægis

Róið er í sérsmíðuðum árabát sem er opinn, en ferðin …
Róið er í sérsmíðuðum árabát sem er opinn, en ferðin mun taka um 20 daga. Fiann Paul og samferðafélagar hans hafa nú róið í rúmlega viku og eru komnir suður fyrir 60. breiddargráðu. Ljósmynd/Aðsend

Ævintýramaðurinn og úthafsræðarinn Fiann Paul, sem sem hef­ur búið á Ís­landi und­an­far­inn rúm­lega ára­tug og rær undir íslenskum fána, er þessa dagana að takast á við einstakt ferðalag. Hefur hann undanfarna viku róið ásamt fimm öðrum í opnum árabát frá syðsta odda Suður-Ameríku áleiðis að Suðurskautslandinu, um svokallað Drakesund. Takist þeim markmið sitt verður það í fyrsta sinn sem það tekst að róa yfir Suður-Íshaf. Gera þeir ráð fyrir að róa eitthvað fram á nýtt ár áður en markmiðinu verður að fullu náð.

Komnir suður fyrir 60. breiddargráðu

Samkvæmt þeim upplýsingum sem mbl.is hefur fengið eru þeir nú komnir suður fyrir 60. breiddargráðu, en gróft áætlað þýðir það að þeir eru komnir rúmlega hálfa leið til Suðurskautslandsins, en leiðin er um 900 kílómetrar. Hins vegar er markmiðið ekki bara að komast að Suðurskautslandinu, heldur að komast þangað sem íshellan byrjar. Líklegt er að það bæti við um 600 kílómetrum og eru þeir því rétt komnir einn þriðja hluta heildarleiðarinnar.

Meðal leiðangursmanna er banda­ríski æv­in­týrakapp­inn Col­in O‘Bra­dy, en hann á meðal ann­ars heims­met fyr­ir að vera fljót­ast­ur á hæsta tind hverr­ar heims­álfu og að ljúka hefðbund­inni æv­in­týra als­lemmu (e. explor­ers grand slam), en þá er farið á fyrr­nefnda tinda auk norður­póls­ins og suður­pól­inn.

Skemmtiferðaskip á vegum Abercrombie & Kent ferðaskrifstofunnar sigldi framhjá árabátnum …
Skemmtiferðaskip á vegum Abercrombie & Kent ferðaskrifstofunnar sigldi framhjá árabátnum í vikunni. Sést þar greinilega hversu lítill árabáturinn er á víðáttumiklu hafinu. Ljósmynd/Aðsend

Fiann ætlar sér hins vegar með þessum leiðangri að ná að verða fyrstur manna til að ná svo­kallaðri út­hafs æv­in­týra als­lemmu (e. Ocean Explorers Grand Slam), en í því felst að hafa róið yfir Atlants­hafið, Ind­lands­hafið, Kyrra­hafið, Norður-Íshafið og nú að lok­um Suður-Íshaf. Enginn maður hefur gert það áður, enda hefur sem fyrr segir enginn róið yfir Suður-Íshaf.

Ásamt þeim Fiann og O‘Brady eru Ca­meron Bella­my, John Peter­sen, Andrew Tow­ne og Jamie Douglas-Hamilt­on í áhöfn. Hef­ur Fiann róið með tveim­ur þeirra áður þegar farið var yfir Ind­lands­haf, en hinir eru nýir.

Stefna að því að klára leiðangurinn á nýju ári

Fiann ræddi við mbl.is áður en hann hélt af stað í leiðangurinn, en þá sagði hann meðal annars að þótt þetta væri ekki hans lengsti leiðangur, þá væri þetta bæði sá leiðangur sem hefði kallað á mesta skipulagningu og yrði líklegast sá erfiðasti. Vísaði hann til veður- og hafskilyrða á svæðinu, en þar má búast við mjög þungum straumum og miklum öldum sem geta náð allt að 15 metra hæð.

Fiann Paul rær hér við Jan Mayen.
Fiann Paul rær hér við Jan Mayen. Ljósmyndir/Fiann Paul

Sagðist hann vera tilbúinn að verja bæði jólum og áramótum við róðurinn, en miðað við áætlun átti hann von á að þeir myndu klára leiðangurinn á tæplega þremur vikum, eða í kringum 3. janúar.

Hægt er að fylgjast með uppfærslum um leiðangurinn sem kærasta Fiann setur inn á heimasíðu hans og Instagram.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert