Haustið 2014 lenti Bryndís Björk Kristjánsdóttir í slysi við Þríhnúkagíg. Hún féll með höfuðið á undan sex metra ofan í grýtta sprungu. Skjót viðbrögð björgunarfólks urðu henni til lífs en hún hlaut mikla höfuðáverka.
Eftir slysið var Bryndís nokkrar vikur á sjúkrahúsi og þaðan lá leiðin á Grensás. Þar bjó hún í mánuð í stífri endurhæfingu en mætti svo á dagdeild í hálft ár.
„Ég þurfti að læra ýmislegt upp á nýtt; ég missti jafnvægið út af auganu og bólgum í heila. Ég gekk með göngugrind eins og gamla fólkið. Ég gekk lengi með sjóræningjalepp, rosa flott. Án hans endaði ég bara á hliðinni,“ segir hún og brosir.
Rætt var ítarlega við Bryndísi um slysið á mbl.is og Morgunblaðinu fyrir fimm árum. Þar kom meðal annars fram að það eina sem Bryndís man eftir föstudeginum 26. september 2014 er að hafa rætt við bróður sinn í síma snemma um morguninn. Það næsta sem hún man er þegar hún lá á Landspítalanum viku síðar.
Nú fimm árum síðar hefur Bryndís náð góðum bata og fer í fjallgöngur og á skíði. Hún glímir enn við höfðuverk, þreytu, orkuleysi og minnisleysi en lætur ekkert stöðva sig.
„Ég hef sætt mig algjörlega við þetta. Ég er voða lítið fyrir drama og sé litla ástæðu til að velta mér upp úr því sem ekki er hægt að breyta. Ég er jákvæð og þrjósk. En það er hægt að segja: lífið fyrir slys og lífið eftir slys,“ segir Bryndís sem segir sögu sína í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina.