Viðgerð lokið og vatni hleypt á

Heitavatnslögn hjá Veitum fór í sundur við Bústaðaveg, rétt við …
Heitavatnslögn hjá Veitum fór í sundur við Bústaðaveg, rétt við Valsheimilið. Heitt vatn mun komast á Vesturbæinn í síðasta lagi fyrir klukkan tvö í nótt. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Starfsmenn Veitna hafa lokið viðgerð við eina aðalæð hitaveitunnar í Reykjavík sem fór í sundur nú í dag og varð til þess að taka þurfti þrýsting af æðinni sem olli heitavatnsleysi í öllum Vesturbænum. Er nú unnið að því að koma vatni aftur á lögnina og mun þrýstingur fyrst komast á hús í nágrenni Öskjuhlíðar fljótlega. Þetta segir Ólöf Snæhólm Baldursdóttir, upplýsingafulltrúi Veitna, í samtali við mbl.is.

Þrýstingur mun svo síðar í dag komast á hús sem eru fjær Öskjuhlíðinni og segir Ólöf að fyrir klukkan tvö í nótt megi búast við að fullur þrýstingur verði kominn á. Segir hún að Landspítalinn verði meðal þeirra fyrstu þar sem þrýstingurinn kemst á, en spítalinn er flokkaður sem viðkvæm starfsemi og voru gufukatlar virkjaðir til að sjá spítalanum fyrir heiti vatni til öryggis eftir að ljóst varð hve alvarleg bilunin var.

Ólöf segir að viðgerðin hafi gengið mjög vel, en við skoðun kom í ljós að um utanaðkomandi tæringu á rörinu var að ræða. „Það hefur eitthvað lekið niður á lögnina og tært hana,“ segir Ólöf.

Hún biður fólk um að athuga með að loka fyrir alla heitavatnskrana sem mögulega hafi verið skrúfað frá svo vatn fari ekki að flæða þegar þrýstingur kemst á.

Spurð hvort íbúar geti gert ráð fyrir einhverjum auknum óþægindum eða þrýstingsleysi í kjölfarið á biluninni segir Ólöf að eigendur húsa þurfi að fylgjast með hvort þrýstingur komist ekki á nú um helgina, en ef svo sé ekki þurfi að hafa samband við Veitur, en við svona viðgerð geti stundum þurft að hreinsa síur í húsum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert