Vilja banna tilteknar einnota plastvörur

Alíslenskur grámávur flýgur hér keikur með plast í gogginum. Ef …
Alíslenskur grámávur flýgur hér keikur með plast í gogginum. Ef frumvarpið fær fram að ganga mun hann líklega sjá minna plast í framtíðinni. Morgunblaðið/Bogi Þór Arason

Drög að frumvarpi sem miðar að því að banna að tilteknar, algengar einnota vörur úr plasti verði settar á markað er nú komið inn á samráðsgátt stjórnvalda. Frumvarpinu er ætlað að breyta lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir. 

„Meðal vara sem bannað verður að setja á markað eru einnota bómullarpinnar úr plasti, hnífapör, diskar, sogrör, hræripinnar og blöðruprik sem og matarílát, drykkjarílát og bollar úr frauðplasti. Undantekningar eru gerðar ef vörur flokkast sem lækningatæki,“ segir í frétt á vef Stjórnarráðsins.

„Sömuleiðis er lagt til að óheimilt verði að afhenda endurgjaldslaust einnota bolla og matarílát úr öðru plasti en frauðplasti sem ætluð eru undir drykki og matvæli til neyslu, líkt og algengt er á skyndibitastöðum. Skal gjaldið vera sýnilegt á kassakvittun.“

Niðurbrjótanlegt plast bannað

Í frumvarpinu er sömuleiðis lagt til skilyrðislaust bann við því að setja vörur á markað sem gerðar eru úr plasti sem er niðurbrjótanlegt með oxun eða svokallað oxó-plast.

„Vörur úr slíku plasti hafa rutt sér til rúms á markaði síðustu ár, einkum vissar tegundir plastpoka, en eðli þess er að sundrast í öragnir sem eru skaðlegar heilsu og umhverfi og er vaxandi vandi á alþjóðavísu,“ segir í fréttinni. 

Í frumvarpinu er tekið fram að merkja skuli sérstaklega einnota plastvörur með upplýsingum um meðhöndlun vörunnar eftir notkun og neikvæð áhrif vörunnar ef hún berist út í umhverfið.

„Þær vörur sem greinin mun taka til eru ýmsar tíðavörur, blautþurrkur til heimilis– og einkanota, ýmsar tóbaksvörur og bollar fyrir drykkjarvörur.“

Drykkjarílát úr plasti úr sögunni

Samkvæmt frumvarpinu verður einungis heimilt að setja á markað einnota drykkjarílát úr plasti sem eru með tappa eða loki úr plasti ef tappinn eða lokið er áfastur ílátinu á meðan notkun þess stendur yfir.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra ásamt ágætis magni af plastrusli.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra ásamt ágætis magni af plastrusli. mbl.is/Hari

„Í tilfelli plastvaranna sem frumvarpið tekur til eru fáanlegar á markaði staðgönguvörur sem eru margnota eða innihalda ekki plast og nota má í staðinn.“

Helsta markmið frumvarpsins er að minnka áhrif af notkun plasts á umhverfið og heilsu fólks og styðja við notkun endurnotanlegra vara. Með frumvarpinu er innleidd ný Evróputilskipun sem er fyrst og fremst beint að ýmsum algengum plastvörum sem finnast helst á ströndum.

„Tilskipuninni er einnig ætlað að styðja við myndun hringrásarhagkerfis og efla úrgangsforvarnir með því að styðja við notkun sjálfbærra og endurnotanlegra vara, fremur en einnota vara.“

Umsögnum um frumvarpið er hægt að skila í samráðsgátt stjórnvalda og er umsagnarfrestur til 16. janúar 2020.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert