„Engin viðurlög við því að vera sóði á Íslandi“

Tómas J. Knútsson hefur lengi vel verið ötull í baráttunni …
Tómas J. Knútsson hefur lengi vel verið ötull í baráttunni fyrir hreinna Íslandi. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Íslendingar eru eftirbátar þeirra þjóða sem þeir bera sig saman við þegar kemur að flokkun og nýtt frumvarp umhverfis- og auðlindaráðuneytisins er ekki til þess fallið að breyta því. Þetta segir Tómas J. Knútsson, formaður umhverfissamtakanna Bláa hersins. 

Frumvarpið lýtur að því að banna að til­tekn­ar, al­geng­ar einnota vör­ur úr plasti verði sett­ar á markað. Tómas segir að nær væri að þjóðin færi að hugsa um það sem hún álítur „rusl og drasl“ sem hráefni, hringrásarhagkerfi væri komið á og sorpflokkun væri samræmd á landsvísu. 

„Auðvitað fagna ég því þegar á að reyna að bremsa af einhvers konar óþarfadót sem er í umhverfinu okkar en ég vil hringrásarhagkerfi á þetta miklu frekar en einhverjar skattlagningar og vesen,“ segir Tómas.

„Það er svo vitlaust gefið í þessum umhverfismálum okkar því auðvitað ætti hluti af virðisaukanum sem er rifinn hér af öllu milli himins og jarðar að fara í úrvinnslusjóð þannig að það sé fólki hvatning að skila því sem til fellur hjá því eins flokkuðu og hægt er án þess að það þurfi alltaf að fara ofan í budduna hjá fólki.“

„Ég hef tekið þátt í því að þrífa í sveitarfélögum …
„Ég hef tekið þátt í því að þrífa í sveitarfélögum sem voru síðan 700.000 krónum fátækari eftir förgunarkostnaðinn og allar tilfærslurnar í kringum gámaflutningabíla, leigu á gámum og allt í kringum það.“ mbl.is/Eggert Jóhannesson

Förguðu rusli fyrir tvær milljónir

Blái herinn og verkefni á vegum samtakanna hafa samtals tínt 50 tonn af rusli það sem af er ári. Förgunarkostnaðurinn fyrir ruslið er upp á tvær milljónir, að sögn Tómasar. 

„Þessi förgunarkostnaður lendir á þeim sveitarfélögum sem taka þátt í einhverjum verkefnum. Það er aldrei tekið með í reikninginn þegar verið er að velta fyrir sér hreinsunarverkefnum. Ég hef tekið þátt í því að þrífa í sveitarfélögum sem voru síðan 700.000 krónum fátækari eftir förgunarkostnaðinn og allar tilfærslurnar í kringum gámaflutningabíla, leigu á gámum og allt í kringum það.“

Tómas segir að um 11 mismunandi útfærslur af sorphirðumálum séu við lýði á Íslandi. 

„Sem þjóð verðum við að fara að samræma allt ferli þessa hráefnis sem fellur til í landinu okkar. Ef við gerum það ekki þá erum við svo miklir eftirbátar annarra þjóða sem við viljum sífellt vera að bera okkur saman við. Það eru til heilu samfélögin þar sem þetta er allt saman í toppmálum. Af hverju getur þetta ekki verið í toppmálum hjá okkur? Mér finnst það vera stóra spurningin.“

„Ef við berum virðingu fyrir því hráefni sem fellur til …
„Ef við berum virðingu fyrir því hráefni sem fellur til hjá okkur þá erum við ekki með rusl og drasl hér úri um allar jarðir og tómir sóðar vaða hér uppi um allt.“ mbl.is/Helena Sif Þorgeirsdóttir

Hráefnisbandalag Íslands

Spurður hvernig hann sjái samræmt ferli hráefnisins fyrir sér segir Tómas:

„Í staðinn fyrir að búa til eitthvert bandalag sem heitir Sorpbandalag Íslands þá ætti það frekar að heita Hráefnisbandalag Íslands. Síðan ætti þetta að vera þannig að það væru svona 6-7 móðurstöðvar úti um allt land. Þær myndu flokka hráefnið, moltugera, og gera þetta allt eins gott og hægt er. Síðan væri þessu smalað saman með sjósiglingum hringinn í kringum landið. Það sem við gætum notað innanlands það notum við innanlands, annað sendum við utan og við gerum þetta með sjóflutningum en erum ekki að keyra sorpi þvers og kruss með vörubílum á landinu eins og í dag.“

Tómas segir að aðalmálið sé að Íslendingar beri virðingu fyrir því sem þeir noti. 

„Ef við berum virðingu fyrir því hráefni sem fellur til hjá okkur þá erum við ekki með rusl og drasl hér úti um allar jarðir og tómir sóðar vaða hér uppi um allt. Það eru engin viðurlög við því að vera sóði á Íslandi. Menn hafa verið með iðnaðarsvæði sem eru eins og ég veit ekki hvað og það bara er svoleiðis vegna þess að það hefur alltaf verið svoleiðis.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert