Davíð Þór Björgvinsson, dómari við Landsrétt, gerði athugasemdir vegna niðurstöðu dómnefndar um lausa stöðu við Hæstarétt. Nefndin skilaði umsögn 9. desember síðastliðinn og var tilkynnt fyrir helgi að dómsmálaráðherra hefði gert tillögu um skipun Ingveldar Einarsdóttur í embættið. Umsækjendur fengu upplýsingar um niðurstöðuna í lok nóvember.
Nefndin treysti sér ekki til að gera upp á milli þriggja umsækjenda; Davíðs Þórs, Ingveldar og Sigurðar Tómasar Magnússonar. Öll eru þau nú dómarar við Landsrétt og Ingveldur, sem fyrr segir, á leið í Hæstarétt.
Eins og rakið var í Morgunblaðinu síðastliðinn föstudag er ósamræmi í þessari niðurstöðu og umsögn dómnefndar vegna Landsréttar 19. maí 2017. Þannig var Davíð Þór metinn langhæfastur af 33 umsækjendum um 15 dómarastöður við Landsrétt, sem tók til starfa 1. janúar 2018.
Umsækjendurnir voru metnir samkvæmt 12 matsþáttum og fékk Davíð Þór 7,35 stig. Næstur kom Sigurður Tómas með 6,775 stig en sjötta varð Ingveldur með 6,3 stig. Fékk Davíð Þór þannig 1,05 stigum meira en Ingveldur. Til samanburðar munaði 1,025 stigum á Ingveldi í sjötta sæti og Arnfríði Einarsdóttur í 18. sæti, að því er fram kemur í umfjöllun um þetta mál í Morgunblaðinu í dag.